Innlent

Mest ánægja með störf Geirs Haarde

Flestir landsmenn eru ánægðir með störf Geirs H. Haarde utanríkisráðherra af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, samkvæmt skoðanakönnun Gallup. Tæplega sextíu prósent svarenda voru ánægðir með störf Geirs og hefur ánægja með störf hans aukist um rúm tíu prósent frá því í apríl.

Rúmlega 80 prósent sjálfstæðismanna eru ánægðir með störf Geirs, en mest hefur ánægjan aukist meðal stuðningsmanna annarra flokka. Um 70 prósent framsóknarmanna sögðust ánægðir og rúm 53 prósent Samfylkingarfólks.

Minnst ánægja með störf Geirs er meðal stuðningsfólks vinstri grænna, en einungis 34 prósent þeirra voru ánægðir með störf hans.

Næst mest ánægja er með störf Þorgerðar K. Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, en rúmlega 52 prósent þjóðarinnar er ánægð með hennar störf.

Þar til nú hefur minnsta ánægjan verið með störf Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra, en nú eru það störf Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra sem minnst ánægja er með, en rúmlega 22 prósent sögðust ánægð með hans störf.

Af ráðherrum Framsóknarflokks er mest ánægja með störf Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra en rúmlega 49 prósent eru ánægð með störf hans. Það er nokkru meira en í apríl, þegar hlutfallið var rúm 38 prósent.

Minnst er ánægjan með störf Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra af ráðherrum Framsóknarflokks, en 33,5 prósent voru ánægð með störf hans. Það er aðeins meira en í apríl þegar 27,9 prósent voru ánægð með störf hans.

Mest er ánægjan meðal framsóknarmanna, tæp 73 prósent. 47,4 prósent sjálfstæðismanna eru ánægðir með störf forsætisráðherra, 23,2 prósent samfylkingarfólks og 8,2 prósent stuðningsmanna vinstri grænna.

Spurt var: Ertu ánægð(ur) eða óánægð(ur) með störf Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra?

Eins var spurt um alla ráðherra í ríkisstjórninni og var röð þeirra breytt á milli viðtala. Úrtakið var 1.227 manns á aldrinum 18 til 75 ára. Svarhlutfall var um 62 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×