Innlent

Tólf takast á um fjögur sæti

Frá Akureyri. Tveir frambjóðendur Samfylkingarinnar á Akureyri vilja fá fyrsta sætið en sex hafa sett stefnuna á annað sætið.
Frá Akureyri. Tveir frambjóðendur Samfylkingarinnar á Akureyri vilja fá fyrsta sætið en sex hafa sett stefnuna á annað sætið.

Framboðsfrestur í lokuðu prófkjöri Samfylkingarinnar á Akureyri, vegna sveitarstjórnarkosninganna á næsta ári, rann út á föstudag. Alls sækjast tólf flokksmenn eftir fjórum efstu sætum framboðslistans en samkvæmt reglum prófkjörsins skulu þau skipuð tveimur konum og tveimur körlum.

Sjö karlmenn gefa kost á sér í prófkjörinu og fimm konur. Uppstillingarnefnd mun raða í sæti fimm til tuttugu og tvö samkvæmt reglum Samfylkingarinnar sem kveða á um að hlutfall kynja á framboðslistum flokksins skuli vera því sem næst jafnt.

Ljóst er að karlmaður mun leiða lista Samfylkingarinnar á Akureyri í komandi kosningum og stendur valið milli þeirra Hermanns Óskarssonar félagsfræðings og Hermanns Tómassonar áfangastjóra. Oktavía Jóhannesdóttir hefur leitt lista flokksins í bæjarstjórn á yfirstandandi kjörtímabili en hún gefur ekki kost á sér til setu á listanum að þessu sinni. Prófkjör Samfylkingarinnar fer fram í Hrísey og á Akureyri hinn 5. nóvember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×