Innlent

Boðar stóreflt samkeppniseftirlit

Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, boðaði stóreflt samkeppniseftirlit í svari við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingu, á Alþingi í gær. "Stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að stórefla samkepniseftirlit. Verulega auknu fjármagni verður varið til þessa málaflokks samkvæmt væntanlegum lagabreytingum." Aðspurð vildi Valgerður ekki svara því til með hvaða hætti þetta yrði gert. Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingu, hafði spurt viðskiptaráðherra að því hvort hún ætlaði að leita álits Samkeppnisstofnunar á því hvort ástæða væri til að kanna hvort verðsamráð eða ólöglegir viðskiptahættir tíðkuðust hjá tryggingafélögunum eða í bankakerfinu. Valgerður hafnaði því og vísaði til sjálfstæðis Samkeppnisstofnunar. Helgi Hjörvar, Samfylkingu, benti þá á að ráðherra hefði árið 2000 hvatt til rannsóknar á samráði olíufélaganna. Upplýsti þingmaðurinn að forstjóri Samkeppnisstofnunar hefði skýrt fjárlaganefnd frá því að 100 milljónir vantaði til að stofnunin gæti sinnt þeim rannsóknum sem á hennar könnu væru.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×