Fastir pennar

Tjaldað til loka kjörtímabils

Svo virðist sem Reykjavíkurlistinn hafi komið nokkurn veginn standandi niður úr loftfimleikum borgarstjóraskipta. Æfingin skapar meistarann. Óvænt innkoma Steinunnar Valdísar og miðað við aðstæður stórmannleg útganga Þórólfs Árnasonar hafa farið fram með ótvíræðum pólitískum tíguleik, sem fær menn ósjálfrátt til að taka undir með talsmönnum framboðsins um að það "sé ótrúlega seigt límið í R-listanum". Sérgrein Reykjavíkurlistans í gegnum árin hefur verið að neita Sjálfstæðisflokknum um að notfæra sér þau pólitísku sóknarfæri sem komið hafa upp. Einmitt það virðist hafa gerst einu sinni enn, Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki náð að nýta sér til framdráttar það kreppuástand sem uppi hefur verið hjá R-listanum. En þrátt fyrir að lausn borgarstjórakreppunnar sé að mörgu leyti smart og hinn nýi borgarstjóri frambærilegur pólitískur leiðtogi er hér um augljósa skammtímalausn að ræða. Lausn sem miðast við að tryggja samstarfið út þetta kjörtímabil. Í ljósi þess að forustumenn bæði framsóknarmanna og vinstri grænna á landsvísu lögðu blessun sína yfir að gera samfylkingarkonuna Steinunni Valdísi að borgarstjóra er afar ólíklegt að verið sé að reikna með framhaldi á samstarfi Reykjavíkurlistans. Sárin frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yfirgaf borgarstjórastólinn eru enn ekki að fullu gróin og það bæri nýrra við ef Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Framsóknarflokkurinn hygðust eftir þá reynslu stíga það skref að bera fram yfirlýstan flokksmann Samfylkingarinnar til forustu fyrir flokkum sínum undir endurnýjuðu merki Reykjavíkurlistans. Þá undirstrikar það enn frekar að hér er um bráðabirgðalausn að ræða, að miklar efasemdir voru um að þessi leið við val á borgarstjóra – jafnvel til skamms tíma - myndi yfirhöfuð vera fær. Ákall stjórnar kjördæmissambands framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður um að utanaðkomandi aðili yrði settur í borgarstjórastólinn er yfirlýsing um að þeir eigi erfitt með að sætta sig við að lúta pólitískum foringja og borgarstjóra, sem opinberlega tilheyrir öðrum flokki. Þeir virðast þó hafa sætt sig við það um stundarsakir, en nær útilokað er að þeir muni fallast á það sem uppstillingu inn í næstu kosningar og kjörtímabil. Nákvæmlega sömu efasemdir eru uppi í baklandi Vinstri grænna, enda væri annað í raun óeðlilegt í fullburða stjórnmálaflokkum. Þessi sama hugsun hefur raunar verið uppi á borðum allt frá því fyrir síðustu helgi þegar umræðan var hvað háværust um að hinn óháði Dagur B. Eggertsson gæti leyst Þórólf Árnason af hólmi eða þá að Stefán Jón Hafstein, oddviti Samfylkingarinnar, tæki að sér þetta hlutverk. Allan þann tíma sem þeir tveir voru nefndir til sögunnar heyrðust sömu andmælin úr baklandi Framsóknar og Vinstri grænna. Þau andmæli fólust í því að fráleitt væri að þessir tveir flokkar tækju þátt í því að búa til og byggja upp nýja leiðtoga fyrir Samfylkinguna. Augljóst var að þrátt fyrir hinn óháða stimpil Dags B. Eggertssonar var hann almennt talinn Samfylkingarmaður af áhrifamönnum Framsóknar og VG. Hafi Dagur hins vegar verið hallur undir bæði Framsókn og Samfylkingu, eins og sumir hafa haldið fram, þá er ljóst að afstaða framsóknarforustunnar hefur endanlega sent hann yfir til Samfylkingar. Einfaldasta skýringin á því að samstarfsflokkar Samfylkingarinnar gátu fallist á Steinunni Valdísi sem borgarstjóra liggur þá í því að menn telja hana nægjanlega burðuga til að valda starfinu, en ólíklega eða ólíklegri en þá Stefán Jón og Dag B. Eggertsson til að nýta sér ljómann og áhrif borgarstjóraembættisins sem frambjóðandi og foringi fyrir Samfylkinguna – hvort heldur sem væri í borginni eða í landsmálunum. Steinunn Valdís hefur ekki verið í hlutverki oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn og fróðlegt verður að fylgjast með hvernig þessi nýja staða mun hafa áhrif á innbyrðis valdahlutföll hjá Samfylkingunni í borginni, þ.e. hver staða Steinunnar Valdísar verður annars vegar og Stefáns Jóns Hafstein hins vegar. Sú staða virðist því uppi að eftir vel heppnaða lausn á borgarstjórakreppu R-listans í vikunni hafi tvennt gerst. Annars vegar hafa líkurnar á að Reykjavíkurlistasamstarfið haldi út kjörtímabilið stóraukist. Hins vegar hafa líkurnar á að Reykjavíkurlistasamstarfið haldi áfram inn í næstu kosningar og næsta kjörtímabil stórminnkað.





×