Samkeppnis-þykjó 6. september 2004 00:01 Fyrir rúmu ári komst upp að um hundrað og fimmtíu milljónir króna höfðu horfið úr sjóðum Landssímans án þess að nokkur maður hefði orðið þess var - starfsmenn Skattsins uppgötvuðu fjárdráttinn. Á daginn kom að drjúgur hluti fjárins mun hafa farið til að halda gangandi starfsemi Skjás eins sem á sínum frumárum hafði einmitt yfir sér vissan menntaskólaþokka, hið glaðværa áhyggjuleysi þess sem veit ekki hvaðan allir peningarnir koma. Það vitum við nú. Þeir komu frá almennum símnotendum á Íslandi. Stjórnendur Landssímans vita ekki aura sinna tal. Og þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð eftir að þeir voru látnir skrúfa fyrir hinn áður ókunna krana. Inn streyma milljónir sem þeir vissu ekki að væru til - peningar sem fram til þessa hafa farið í rekstur á Skjá einum. Og hvað væri þá snjallræði að gera við þetta fundna fé? Að setja þá í rekstur á Skjá einum? Einhver hefði ef til vill haldið að Landssímamenn vildu sem minnst af þessari sjórnvarpsstöð vita eftir það sem á undan er gengið og héldu sig sem allra lengst frá henni - en nei, því er aldeilis ekki að heilsa. Engu er líkara en að stjórnendur Landssímans telji að ekki sé nóg að gert við að færa fé á milli almennra símnotenda á Íslandi og Skjás eins. Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. Fyrirgefið svo forpokaðan hugsunarhátt - en gæti ekki hugsast að þetta fundna fé benti til þess að ef til vill væri Landssíminn að krefja notendur sína um of háar upphæðir fyrir þjónustu sína og að eðlilegast væri að lækka gjöldin? Þegar fyrirtæki tekur ekki eftir því að 150 milljónir vantar inn í rekstur þess - gæti það ekki bent til þess að fyrirtækið sé að krefja viðskiptavini sína um 150 milljónum króna of mikið? Með öðrum orðum: að þarna séu 150 milljónir sem það getur hæglega séð af. Þegar upp kemst um stórkostlegt bruðl hjá ríkisfyrirtæki - allir forstjórarnir á ofur-eftirlaunum, skógræktin, erlendu ævintýrin, auglýsingasukkið... - og tekið er til við að gæta meira aðhalds: ætti það ekki að skila sér í lægri gjöldum til viðskiptavinanna? Forstjórar sem skilja ekki eðli opinbers rekstrar eru að verða hálfgert þjóðarböl. Hvert er það eðli? Það er í rauninni afar einfalt: það er þjónusta við eigendur sína, almenning í landinu. Hvort sem litið er til ríkis eða borgar verða hins vegar fyrir okkur stjórnendur sem eru í þykjustuleik og ímynda sér að þeir séu í samkeppni á frjálsum markaði og nota álögur á okkur neytendur til að skapa sér vígstöðu í þessari ímynduðu samkeppni. Þeir eru í samkeppnis-þykjó. Landssíminn að fjárfesta í Skjá einum: það er svolítið eins og Vegagerðin að fjárfesta í Iceland Express "til að mæta harðnandi samkeppni" eða Vita- og Hafnarmálastofnun að fjárfesta í 66°norður "til að láta ekki sinn hlut í samkeppninni", eða Hagstofan að fjárfesta í Verðbréfastofunni "því að okkur finnst þetta mjög spennandi fjárfestingarkostur", eða Veðurstofan að fjárfesta í Heimsferðum "því að við ætlum ekki að sitja eftir í þessari samkeppni", eða Háskóli Íslands að fjárfesta í Eddu-útgáfu "því að við sjáum þar mikil sóknarfæri". Allt eru þetta mæt ríkisfyrirtæki sem starfrækt eru í almannahag enda hvarflar sjálfsagt ekki að stjórnendum þeirra að fara í samkeppnis-þykjó. Allir eiga þeir það líka eflaust sammerkt að vita aura sinna tal. Það kann að vera glæsibragur yfir því að vera í samkeppni, að ekki sé talað um að standa sig vel í þeirri samkeppni - en það þurfa ekkert allir að vera í samkeppni. Það er meiri ljómi yfir farsælum ríkisforstjóra, grandvörum þjóni almennings sem er trúr yfir því sem honum er trúað fyrir og er ekki að leika eitthvað annað en hann er. Ríkisforstjórar í samkeppnis-þykjó eru eins og nýfráskilinn maður með tagl. Hafa á sér yfirbragð einhvers grundvallar-misskilnings í sjálfsmyndinni. "Þú heldur að þú sért frjáls en þú ert aðeins á milli kvenna" söng Megas í bragnum snjalla Um raungildisendurmat umframstaðreynda og gæti átt við um Landssímann um þessar mundir. Landssíminn er í kynlegu millibilsástandi sem verður að fara að linna. Hann verður annaðhvort að vera ríkisfyrirtæki - með þeim samkeppnislausa þjónustukúltur sem því á að fylgja - eða einkafyrirtæki þar sem forstjórarnir þurfa ekki lengur að vera pappírstígrisdýr. Sem stendur notar fyrirtækið það mikla bolmagn sem það fær í krafti ríkisstöðu sinnar - til að hasla sér völl sem einkafyrirtæki væri. Það er að verða tímabært að klippa taglið - eða safna hári. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Íslenskur landbúnaður er ekki aðeins arfleifð heldur líka framtíð okkar Íslendinga Halla Hrund Logadóttir Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Vítahringur ofbeldis og áfalla Paola Cardenas Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Að segja bara eitthvað Hulda María Magnúsdóttir Skoðun Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Heilbrigð sál í hraustum líkama Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun
Fyrir rúmu ári komst upp að um hundrað og fimmtíu milljónir króna höfðu horfið úr sjóðum Landssímans án þess að nokkur maður hefði orðið þess var - starfsmenn Skattsins uppgötvuðu fjárdráttinn. Á daginn kom að drjúgur hluti fjárins mun hafa farið til að halda gangandi starfsemi Skjás eins sem á sínum frumárum hafði einmitt yfir sér vissan menntaskólaþokka, hið glaðværa áhyggjuleysi þess sem veit ekki hvaðan allir peningarnir koma. Það vitum við nú. Þeir komu frá almennum símnotendum á Íslandi. Stjórnendur Landssímans vita ekki aura sinna tal. Og þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð eftir að þeir voru látnir skrúfa fyrir hinn áður ókunna krana. Inn streyma milljónir sem þeir vissu ekki að væru til - peningar sem fram til þessa hafa farið í rekstur á Skjá einum. Og hvað væri þá snjallræði að gera við þetta fundna fé? Að setja þá í rekstur á Skjá einum? Einhver hefði ef til vill haldið að Landssímamenn vildu sem minnst af þessari sjórnvarpsstöð vita eftir það sem á undan er gengið og héldu sig sem allra lengst frá henni - en nei, því er aldeilis ekki að heilsa. Engu er líkara en að stjórnendur Landssímans telji að ekki sé nóg að gert við að færa fé á milli almennra símnotenda á Íslandi og Skjás eins. Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. Fyrirgefið svo forpokaðan hugsunarhátt - en gæti ekki hugsast að þetta fundna fé benti til þess að ef til vill væri Landssíminn að krefja notendur sína um of háar upphæðir fyrir þjónustu sína og að eðlilegast væri að lækka gjöldin? Þegar fyrirtæki tekur ekki eftir því að 150 milljónir vantar inn í rekstur þess - gæti það ekki bent til þess að fyrirtækið sé að krefja viðskiptavini sína um 150 milljónum króna of mikið? Með öðrum orðum: að þarna séu 150 milljónir sem það getur hæglega séð af. Þegar upp kemst um stórkostlegt bruðl hjá ríkisfyrirtæki - allir forstjórarnir á ofur-eftirlaunum, skógræktin, erlendu ævintýrin, auglýsingasukkið... - og tekið er til við að gæta meira aðhalds: ætti það ekki að skila sér í lægri gjöldum til viðskiptavinanna? Forstjórar sem skilja ekki eðli opinbers rekstrar eru að verða hálfgert þjóðarböl. Hvert er það eðli? Það er í rauninni afar einfalt: það er þjónusta við eigendur sína, almenning í landinu. Hvort sem litið er til ríkis eða borgar verða hins vegar fyrir okkur stjórnendur sem eru í þykjustuleik og ímynda sér að þeir séu í samkeppni á frjálsum markaði og nota álögur á okkur neytendur til að skapa sér vígstöðu í þessari ímynduðu samkeppni. Þeir eru í samkeppnis-þykjó. Landssíminn að fjárfesta í Skjá einum: það er svolítið eins og Vegagerðin að fjárfesta í Iceland Express "til að mæta harðnandi samkeppni" eða Vita- og Hafnarmálastofnun að fjárfesta í 66°norður "til að láta ekki sinn hlut í samkeppninni", eða Hagstofan að fjárfesta í Verðbréfastofunni "því að okkur finnst þetta mjög spennandi fjárfestingarkostur", eða Veðurstofan að fjárfesta í Heimsferðum "því að við ætlum ekki að sitja eftir í þessari samkeppni", eða Háskóli Íslands að fjárfesta í Eddu-útgáfu "því að við sjáum þar mikil sóknarfæri". Allt eru þetta mæt ríkisfyrirtæki sem starfrækt eru í almannahag enda hvarflar sjálfsagt ekki að stjórnendum þeirra að fara í samkeppnis-þykjó. Allir eiga þeir það líka eflaust sammerkt að vita aura sinna tal. Það kann að vera glæsibragur yfir því að vera í samkeppni, að ekki sé talað um að standa sig vel í þeirri samkeppni - en það þurfa ekkert allir að vera í samkeppni. Það er meiri ljómi yfir farsælum ríkisforstjóra, grandvörum þjóni almennings sem er trúr yfir því sem honum er trúað fyrir og er ekki að leika eitthvað annað en hann er. Ríkisforstjórar í samkeppnis-þykjó eru eins og nýfráskilinn maður með tagl. Hafa á sér yfirbragð einhvers grundvallar-misskilnings í sjálfsmyndinni. "Þú heldur að þú sért frjáls en þú ert aðeins á milli kvenna" söng Megas í bragnum snjalla Um raungildisendurmat umframstaðreynda og gæti átt við um Landssímann um þessar mundir. Landssíminn er í kynlegu millibilsástandi sem verður að fara að linna. Hann verður annaðhvort að vera ríkisfyrirtæki - með þeim samkeppnislausa þjónustukúltur sem því á að fylgja - eða einkafyrirtæki þar sem forstjórarnir þurfa ekki lengur að vera pappírstígrisdýr. Sem stendur notar fyrirtækið það mikla bolmagn sem það fær í krafti ríkisstöðu sinnar - til að hasla sér völl sem einkafyrirtæki væri. Það er að verða tímabært að klippa taglið - eða safna hári.
Íslenskur landbúnaður er ekki aðeins arfleifð heldur líka framtíð okkar Íslendinga Halla Hrund Logadóttir Skoðun
Íslenskur landbúnaður er ekki aðeins arfleifð heldur líka framtíð okkar Íslendinga Halla Hrund Logadóttir Skoðun