Innlent

Féll í ána og hvarf svo sjónum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Nokkuð gott aðgengi er að gilinu. Sjúkrabílar og lögregla er á vettvangi auk björgunarsveita og kafara frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Nokkuð gott aðgengi er að gilinu. Sjúkrabílar og lögregla er á vettvangi auk björgunarsveita og kafara frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Aðsend

Björgunarsveitir víða á Austurlandi og tvær þyrlur frá Landhelgisgæslunni hafa verið kallaðar út vegna tilkynningar um að einstaklingur hafi fallið í ána við Stuðlagil. Einstaklingurinn sást fyrst fljóta í ánni en hvarf svo sjónum. Ekki er snjór á staðnum en nokkuð kalt og gæti verið ísing við ána. 

Í tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi kemur fram að tilkynningin hafi borist um klukkan 14.30 um að einstaklingur hafi fallið ofan í Jökulsá á Dal við Stuðlagil. Viðbragðsaðilar voru kallaðir strax til og standa leitaraðgerðir enn yfir samkvæmt lögreglu. 

Björgunarsveitirnar Jökull og Hérað voru fyrst kallaðar en samkvæmt upplýsingum frá Jóni Þór Víglundssyni í Landsbjörg hafa verið kallaðar út fleiri sveitir af Austurlandi. Meðal annars til að fá aðstoð með drónum og straumvatnsbúnaði. Svo hægt sé að tryggja öryggi fólks sem fer í ána. 

Mikill fjöldi er við gilið við leit.Aðsend

Fyrri þyrla Landhelgisgæslunnar lagði af stað um korter yfir 15 samkvæmt upplýsingum frá Ásgeiri Erlendssyni upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar og svo önnur stuttu seinna. Seinni þyrlan flutti kafara frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins austur til að aðstoða við leit. 

Stuðlagil er í Efri-Jökuldal á Fljótsdalshéraði. Samkvæmt talningu Ferðamannastofu heimsækja um þúsund manns Stuðlagil á hverjum degi á sumrin en aðeins færri á veturna. Í október í fyrra heimsóttu um 400 manns svæðið.

Á myndinni allri sést hversu nálægt gilinu viðbragðsaðilarnir eru.Aðsend
Staðsetning Stuðlagils.Vísir/Tótla



Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×