Fótbolti

Benzema fetar í fótspor Ronaldos og fer til Sádi-Arabíu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Karim Benzema er að öllum líkindum á leið til Al-Ittihad í Sádi-Arabíu.
Karim Benzema er að öllum líkindum á leið til Al-Ittihad í Sádi-Arabíu. Denis Doyle/Getty Images

Franski knattspyrnumaðurinn Karim Benzema er á leið til Sádi-Arabíumeistara Al-Ittihad. Benzema lék sinn síðasta leik fyrir Real Madrid í gær í lokaumferð spænsku úrvalsdeildarinnar eftir fjórtán ára veru hjá félaginu.

Það eru hinir ýmsu miðlar sem greina frá þessu, en þar á meðal er félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano. Romano setur slagorðin „here we go“ við tilkynninguna, sem þýðir yfirleitt að samningar séu í höfn.

Benzema mun því feta í fótspor fyrrverandi liðsfélaga síns hjá Real Madrid, en Cristiano Ronaldo gekk í raðir Al-Nassr í Sádi-Arabíu fyrr á þessu ári. Ronaldo og félögum tókst ekki að vinna deildina í ár og horfðu á eftir titlinum í hendur liðsmanna Al-Ittihad, verðandi félags Benzema.

Benzema, sem verður 36 ára gamall á árinu, mun skrifa undir tveggja ára samning við Al-Ittihad með möguleika á eins árs framlengingu.

Franski framherjinn hefur átt afar góðu gengi að fagna frá því að hann gekk í raðir Real Madrid árið 2009. Hann hefur skorað 238 mörk í spænsku úrvalsdeildinni fyrir félagið og titlarnir eru orðnir 24 talsins. Þar á meðal hefur hann unnið Meistaradeild Evrópu fimm sinnum og spænsku deildina fjórum sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×