„Eftir nokkur ár á hliðarlínunni teljum við að íslenski markaðurinn sé að verða áhugaverður ný,“ segir í fréttabréfi sem sjóðstjóri hjá BlueBay sendi á viðskiptavini fyrirtækisins í apríl. Hann segir að ávöxtun skuldabréfa á Íslandi hafi, eins og annars staðar, farið hækkandi samhliða hækkandi vaxtastigi. Hagkerfið sé að koma út úr faraldrinum og hagvöxtur að festa sig í sessi.
„Ísland ætti að endurheimta viðskiptaafgang á þessu ári eftir því sem ferðamannastreymið eykst. Þetta gæti skapað þrýsting á gengið, sem skapar áhugaverð tækifæri gagnvart evrunni,“ segir í fréttabréfinu.
Litið fram á veginn má búast við að það verði samleitni milli Íslands og annarra Evrópuríkja, bæði hvað varðar efnahagsþróun og fjármálamarkaði.
BlueBay hóf innreið sína á íslenska skuldabréfamarkaðinn árið 2015 og var um tíma stærsti erlendi eigandi íslenskra ríkisskuldabréfa. Á seinni hluta árs 2020 seldi fyrirtækið allar ríkisbréfaeignir sínar á Íslandi fyrir nærri 50 milljarða króna. Salan, sem náði yfir liðlega þriggja mánaða tímabil, knúði fram umfangsmestu gjaldeyrissölu Seðlabanka Íslands á einni viku frá fjármálahruninu.
„Litið fram á veginn má búast við að það verði samleitni milli Íslands og annarra Evrópuríkja, bæði hvað varðar efnahagsþróun og fjármálamarkaði. Með ávöxtun langtímaskuldabréfa aftur yfir 5 prósent og sterkar undirstöður til meðallangstíma teljum við að Íslandi bjóði upp á áhugaverð tækifæri með tilliti til áhættu,“ segir í fréttabréfinu.
Sjóðstjóri BlueBay er bjartsýnn á verðbólguþróun á Íslandi. Hann segir á að sögulega hafi launahækkanir verið stór þáttur í verðlagsbreytingum en eftir undirritun kjarasamninga árið 2021 eigi launahækkanir að vera „minna áhyggjuefni“ á næstu mánuðum.
„Þar af leiðandi,“ bætir hann við, „er búist við að verðbólga fari úr 6,7 prósent niður í 3-4 prósent fyrir árslok og enn neðar árið 2023.“
Verðbólga mældist 7,2 prósent í apríl og vænta markaðsaðilar þess, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Innherji birti í morgun, að Seðlabankinn muni hækka vexti um 75 eða 100 punkta á næsta vaxtaákvörðunarfundi á miðvikudaginn. Laust taumhald peningastefnu, mjög lágir raunstýrivextir og vaxandi verðbólguþrýstingur voru meginstef í þeim svörum sem bárust.