Innherji

Tekjur stærstu hótelkeðju landsins tvöfölduðust milli ára

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Grand hótel í Reykjavík er eitt Íslandshótela.
Grand hótel í Reykjavík er eitt Íslandshótela. Vísir/Egill

Íslandshótel, stærsta hótelkeðja landsins með 17 hótel í rekstri, tapaði um 120 milljónum króna á síðasta ári en til samanburðar nam tap félagsins á árinu 2020 nær 2,2 milljörðum króna.

Í nýbirtum ársreikningi hótelkeðjunnar kemur fram að hún hafi verið svipt nær öllum tekjum sínum af erlendum ferðamönnum, sem vanalega eru 90 prósent af fjölda gesta, frá því í apríl 2020 og fram á haustið 2021. Um tíma var aðeins eitt hótel af 17 hótelunum félagsins opið.

Tekjur Íslandshótela árið 2021 námu 7,3 milljörðum króna og tvöfölduðust milli ára. Þær voru um 63 prósent af tekjum ársins 2019 þegar ferðamennska var í eðlilegu horfi yfir allt árið. Fjöldi ferðamanna til landsins árið 2021 voru 688 þúsund samanborið við tæpar 2 milljónir árið 2019.

Um miðjan mars féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur í máli félagsins Fosshótel Reykjavík, sem er í eigu Íslandshótela og heldur utan um rekstur hótels við Höfðatorg, gegn fasteignafélaginu Íþaka.

Málið snýst um leigugreiðslur hótelsins til Íþöku í kórónuveirufaraldrinum. Hótelinu var lokað í mars 2020 vegna faraldursins og hættu rekstraraðilar hótelsins að greiða eigenda fasteignarinnar, Íþöku, leigu frá 1. apríl 2020 til 1. september sama ár.

Fosshótel bar fyrir sig að félaginu bæri ekki að greiða leigu fyrir umrætt tímabil meðal annars á grundvelli ákvæðis í leigusamningnum um ófyrirséð og ófyrirsjáanleg atvik, ólögfestri reglu kröfuréttar um óviðráðanleg ytri atvik, svokallað force majeure.

Niðurstaðan sú að lækka leigugreiðslur hótelsins um þriðjung fyrir tímabilið 1. apríl 2020 til 31. Mars 2021. Íþaka hefur áfrýjað dóminum og jafnframt farið fram á gjaldþrotaskipti hótelsins en sú krafa sætir nú meðferð héraðsdóms Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×