Sport

Feginn því að þurfa ekki lengur að lemja fólk

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Georges St-Pierre.
Georges St-Pierre. vísir/getty
Einn besti bardagakappi UFC frá upphafi, Georges St-Pierre, tilkynnti formlega í gær að hann myndi ekki fara aftur inn í búrið. Ferlinum væri lokið.

GSP tilkynnti um ákvörðunina í heimabæ sínum Montreal en hann er orðinn 37 ára gamall. Hann hefur aðeins einu sinni barist síðan 2013. Hann snéri aftur árið 2017 til þess að pakka Michael Bisping saman.





Síðan þá hefur mikið verið reynt til þess að fá hann aftur inn í búrið en ekki gengið. Hann hættir því með árangurinn 26-2 en tapaði síðast bardaga árið 2007. GSP vann síðustu þrettán bardaga sína.

GSP náði því að verða bæði velti- og millivigtarmeistari hjá UFC og hélt veltivigtartitlinum í 2.204 daga.





„Í bardagaíþróttum á maður að hætta á toppnum,“ sagði GSP en viðurkenndi að það hefði verið freistandi að mæta Khabib Nurmagomedov síðar á árinu en Rússinn grátbað GSP um bardaga.

„Það eru engin tár á þessari stundu. Ég er mjög ánægður með ákvörðun mína. Það þarf aga til þess að hætta á toppnum.“

GSP sagði einnig að hann hefði í raun aldrei notið bardagadagsins mikið. Hann hefði aldrei fengið neitt út úr því að meiða aðra.

„Ég hataði bardagadaginn. Mér finnst ekki gaman að meiða aðra. Ég elska að æfa og undirbúa mig en bardagadagurinn gerði aldrei neitt fyrir mig. Nú þarf ég ekki að lemja neinn lengur,“ sagði GSP og brosti.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×