Lífið

Frasier gæti snúið aftur en verður sennilega ekki í Seattle

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Grammer og Moose (eða Enzo?) líkja eftir frægri mynd frá 1899, táknmynd fyrirtækisins His Master's Voice eða HMV
Grammer og Moose (eða Enzo?) líkja eftir frægri mynd frá 1899, táknmynd fyrirtækisins His Master's Voice eða HMV Vísir/Getty
Gamanþættirnir um geðlækninn Frasier Crane gætu brátt snúið aftur eftir 14 ára hlé. Kelsey Grammer, sem lék Frasier og var framleiðandi þáttanna, er sagður vera í viðræðum um að endurvekja þessa gríðarvinsælu þætti.

Nýverið hafa margir eldri grínþættir verið endurvaktir með ágætum árangri og má þar t.d. nefna Full House, Will & Grace, Roseanne og Murphy Brown.

Frasier varð til sem aukapersóna í þáttunum Staupasteini eða Cheers. Þeir gerðust á öldurhúsi í Boston en Frasier fékk sinn eigin þátt árið 1993 og flutti þá til Seattle. Þáttaröðin vann strax til Emmy verðlauna og var margverðlaunuð næsta áratug.

Grammer hefur einbeitt sér að dramatískari hlutverkum síðustu ár en virðist nú tilbúinn að snúa aftur í gamanleikinn sem skaut honum upp á stjörnuhimininn til að byrja með.

Ef nýir þættir um Frasier fara í framleiðslu er talið að þeir muni gerast í einhverri annarri borg en Seattle. Þá er ljóst að John Mahoney mun ekki snúa aftur sem faðir Frasier þar sem hann er fallinn frá.

Sömu sögu er að segja af hundinum Eddie, sem var upphaflega leikinn af Russell Terrier hundi sem hét Moose. Þegar hann settist í helgan stein tók sonur hans Enzo við hlutverkinu.

Bæði Moose og Enzo eru nú fallnir frá og því ekki ljóst hver ætti að taka við hlutverki Eddies.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×