Innlent

Sjáðu muninn á Reykja­vík milli ára: Hiti aldrei hærri í ár en snjó­dýptin aldrei meiri í fyrra

Margir munu eflaust þá daga þegar snjór var í Reykjavík en það þarf svo sem ekki að leita langt aftur í tímann.

Birgir Olgeirsson skrifar
Börn bjuggu til snjókarla við Ísaksskóla í desember í fyrra en hoppa í polla í ár. Vísir/Vilhelm/Eyþór
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sex daga desembermánaðar var 7,2 stig en veðurfræðingar segja sömu daga aldrei hafa verið hlýrri í borginni. Þegar talað er um að aldrei hafi mælst hærri meðalhiti þá er átt við frá því mælingar hófust um miðbik 19. aldar.

Greint var frá því á þriðjudag að meðalhitinn í Reykjavík það sem af er desembermánuði sé rúmum sex gráðum hlýrri en á árunum 1961 til 1990. Sömu sögu er að segja af Akureyri þar sem meðalhitinn er 5,75 gráður það sem af er mánuðinum og 5.03 gráður á Kirkjubæjarklaustri.

Margir munu eflaust þá daga þegar snjór var í Reykjavík en það þarf svo sem ekki að leita langt aftur í tímann.

27. nóvember í fyrra mældist snjódýpt 21 sentímetri í klukkan níu að morgni í Reykjavík.

Og 1. desember í fyrra var heldur betur snjókoma en þegar allt hafði verið tekið saman hafði aldrei mælst meiri snjódýpt í Reykjavík í desember, eða heilir 42 sentímetrar. Metið í Reykjavík er hins vegar 51 sentímetra snjódýpt sem mældist í febrúar árið 1952.

Vísir tók saman nokkrar myndir frá 1. desember í fyrra og ákvað að taka myndir á nákvæmlega sömu stöðum í gær. Afraksturinn má sjá hér fyrir neðan:

Ísaksskóli

Börnin léku sér að því að búa til snjókalla í fyrra en hoppa í pollunum í ár.

Fellin

Í fyrra börðust gangandi vegfarendur við snjóinn en í ár er tíðin mild.

Skipholt

Aðeins hörðustu hjólreiðamenn létu sig hafa það að fara leiðar sinnar á hjólum í fyrra á meðan færri eru búnir að leggja hjólin til hliðar í ár.

Grafarvogur

Í fyrra þurftu ökumenn að leggjast á eitt til að halda umferðinni gangandi á meðan í ár gengur hún eins og smurð vél.

Hverfisgata

Snjódýptin í fyrra sló met. Í ár er það hitinn sem slær met.


Tengdar fréttir






×