Lífið

Gaman að leika í búningadrama

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Tökur hefjast í september á seríu númer tvö af Poldark.
Tökur hefjast í september á seríu númer tvö af Poldark. Vísir/Getty
Leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir skrifaði á dögunum undir áframhaldandi samning um framleiðslu þáttanna Poldark sem framleiddir eru af BBC.

„Það þýðir ekkert endilega að við gerum þetta allt, það veltur allt á vinsældum og hvernig þetta gengur allt saman,“ segir Heiða hógvær, en þættirnir hafa gengið vel og er samningurinn um hlutverk í þáttunum til næstu fjögra til fimm ára.

Rúmar sjö milljónir horfðu á fyrsta þátt seríunnar sem frumsýndur var í byrjun mars á þessu ári og rúmlega sex milljónir fylgdust með lokaþættinum og segir Heiða tölurnar hálf óraunverulegar.

Tökur á annarri seríu hefjast í september og segir Heiða ekki mikið annað komast að á meðan þær standa yfir. „Ég er ekki enn þá búin að fá dagskrána mína, en ef þetta er eins og það var í fyrra þá kemst ekkert annað fyrir.“

Síðasta verkefni Heiðu á Íslandi var hlutverk Grétu í sjónvarpsþáttunum Hraunið, sem sýndir voru á RÚV í vetur, og Heiða segist vera mjög opin fyrir því að taka að sér frekari verkefni hérlendis þegar tími gefst til. „Mér hefur boðist tækifæri til þess að vera mögulega hluti af nokkrum verkefnum í haust en gat því miður ekki einu sinni athugað málið,“ segir hún og bætir við: „Ég hefði verið mjög til í það, vonandi kemur sá dagur þar sem ég er laus.“

Poldark er búningadrama sem byggt er á samnefndum skáldsögum eftir Winston Graham sem skrifaðar voru um miðja síðustu öld og segja þættirnir frá Ross Poldark sem snýr heim eftir þrjú ár í hernum og kemst að því að unnusta hans er trúlofuð frænda hans og fer Heiða með hlutverk unnustunnar, Elizabeth.

Heiða segir gaman að leika í búningadrama á borð við Poldark og að mörgu þurfi að huga en sögusvið þáttanna er seint á 18. öld. „Þetta er allt öðruvísi, maður hagar sér öðruvísi, talar öðruvísi og hreyfir sig allt öðruvísi,“ segir hún glöð í bragði að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×