Viðskipti erlent

IKEA þarf að bæta öryggismál tengd MALM-kommóðum

Atli Ísleifsson skrifar
MALM-kommóða.
MALM-kommóða. Mynd/IKEA
Húsgagnarisanum IKEA hefur verið gert að bæta öryggismál kommóðunnar MALM, eftir að tvö börn í Bandaríkjunum urðu undir slíkum kommóðum á síðasta ári og létust.

Bandarísk neytendayfirvöld hafa fyrirskipað IKEA að deila út veggfestingum til kaupenda um 27 milljóna MALM-kommóða í landinu. Þetta kemur fram í frétt USA Today.

Neytendayfirvöld í Bandaríkjunum segja kommóðurnar ekki vera öruggar, hafi þær ekki verið festar við vegg.

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa á síðustu árum lagt mikla áherslu á að stuðla að auknu öryggi þegar kemur að málum sem þessum.

Í frétt USA Today kemur fram að aðra hverja viku að meðaltali berist tilkynningar um dauðsföll þar sem börn hafa orðið undir húsgögnum á borð við sjónvörp, hillusamstæður og kommóður.

Uppfært 16:18: Að gefnu tilefni vill IKEA á Íslandi taka fram að veggfestingar fylgja MALM-kommóðum sem seldar eru hér á landi. Ef fólk hefur hent veggfestinginni sinni þá er því velkomið að koma í IKEA og fá afhenta nýja veggfestingu sér að kostnaðarlausu í Skilað og skipt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×