Viðskipti erlent

Búist við löngum röðum við gríska banka á mánudag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ellilífeyrisþegar fengu að fara í bankann til að taka út lífeyrinn fyrr í mánuðinum og mynduðust þá langar raðir.
Ellilífeyrisþegar fengu að fara í bankann til að taka út lífeyrinn fyrr í mánuðinum og mynduðust þá langar raðir. vísir/epa
Grískir bankar opna á mánudagsmorgun í fyrsta skipti í þrjár vikur. Búast má við löngum biðröðum við bankaútbú þar sem talið er að viðskiptavinir muni flykkjast í bankana til að tæma bankahólf sín sem þeir hafa ekki haft aðgang að seinustu þrjár vikur.

Enn verður takmarkað hversu mikið Grikkir geta tekið út af bankareikningum sínum vegna gjaldeyrishafta. Í stað þess að mega aðeins taka út 60 evrur á dag, eins og verið hefur síðustu vikurnar, verður nú hægt að taka út alls 420 evrur á viku og má taka upphæðina alla í einu af bankareikningnum.

Bankahólf eru undanskilin gjaldeyrishöftum og mega viðskiptavinir því taka hvað sem er úr þeim.

„Við búumst við röðum í útibúum okkar fyrstu tvo til þrjá dagana. Margir munu vilja komast í bankahólfin sín,“ segir talsmaður EFG Eurobank Ergias, þriðja stærsta banka Grikklands.

Ríkisstjórn Grikklands fyrirskipaði að bönkunum yrði lokað á sínum tíma af ótta við allsherjar hrun fjármálakerfisins í landinu. Mikil óvissa ríkti þá um framtíð Grikkja innan evrusvæðisins.

Áhlaup voru gerð á bankana dagana áður en þeim var lokað og tóku Grikkir út allt að 1,6 milljarða evra á dag.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×