Innlent

„Fólk er nánast í lífshættu við Gullfoss“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Erfiðar aðstæður við Gullfoss í dag.
Erfiðar aðstæður við Gullfoss í dag. Mynd / skjáskot af vefsíðu RÚV, Pjetur
Gríðarleg hálka hefur verið á Suðurlandinu í dag en fjöldi ferðamanna hafa lagt leið sína á ferðamannastaði þar í dag.

Í samtali við Vísi lýsir Valur Ármann Gunnarsson, bílstjóri, aðstöðunni fyrir ferðamenn á landsfjórðungnum til háborinnar skammar og varla sé hægt að fóta sig við Gullfoss vegna hálku.

„Ég hef verið að fara með fólk um svæðið í allan dag og það er í stórhættu við Gullfoss og einnig við Geysi,“ segir Valur í samtali við Vísi.

„Ég veit til að mynda um einn mann sem lærbrotnaði í dag eftir að hafa runnið til á svellinu. Það er gjörsamlega fáránlegt að verið sé hvetja fólk til að koma á þessa staði en á sama tíma lítið sem ekkert gert fyrir það. Það hefur ekki verið saltað né komið fyrir sand á svellinu við Gullfoss og hefur fólk verið í miklum vandræðum með að fóta sig.“

Samkvæmt því sem fréttastofa kemst næst eru vegirnir á svæðinu stórhættulegir og mikil hálka.

„Maður spyr bara hver er ábyrgur fyrir að svona sé komið fyrir öllum þeim ferðamönnum sem hafa lagt leið sína til landsins?“

„Svæðið í kringum Gullfoss er bara til skammar og það má í raun segja að fólk sé í lífshættu þar. Aðstöður eru strax betri við Þingvöll en þar má samt sem áður gera mun betur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×