Fótbolti

Lagerbäck vildi ekki gera of mikið úr innkomu Eiðs Smára

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mynd/daníel
Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska landsliðsins í fótbolta, vildi ekki gera alltof mikið úr innkomu Eið Smára Guðjohnsen í sigurleikinn á móti Færeyjum í kvöld þegar hann var spurður út í hann á blaðamannafundi í kvöld. Eiður Smári gerbreytti sóknarleik íslenska liðsins í seinni hálfleiknum og bjó til sigurmark íslenska liðsins.

„Við vorum búnir að plana það að spila hluta leiksins með sókndjarfara lið en við erum vanir. Þetta var góð tilraun og Eiður Smári sýndi það í kvöld að hann er ennþá mjög góður leikmaður. Hann er með mjög góða fætur, á góðar sendingar og er með góða stjórn á boltanum. Hann er mjög góður á því sviði," sagði Lars Lagerback.

Eiður Smári hefur átt margar góðar innkomur í íslenska liðið að undanförnu en Lars er ekki tilbúinn að skella honum í byrjunarliðið. Er von á breytingum þar?

„við vitum hvað Eiður Smári getur í fótbolta en þetta mun snúast um það hvernig við náum besta jafnvæginu í liðinu. Núna vorum við án Gylfa og Arons og vonandi verða þeir með í Sviss," segir Lars.

„Það er mikil samkeppni um sæti í liðinu en byrjunarliðið ræðst mikið af því hvar styrleikar mótherjanna liggja. Menn þurfa að hafa bæði kosti í varnarleik sem og í sóknarleik. Eiður Smári sýndi í það minnsta að hann getur spilað í 45 mínútur á móti Færeyjum," sagði Lars.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×