Viðskipti erlent

ESB útvíkkar rannsókn sína á olíusamráðinu

Samkeppnisyfirvöld innan Evrópusambandsins hafa útvíkkað rannsókn sína á meintu samráði um skráð heimsmarkaðsverð á olíu hjá þremur af stærstu olíufélögum Evrópu og ráðgjafafyrirtækisins Platts.

Í frétt um málið á vefsíðu Verdens Gang segir að fyrrgreind yfirvöld hafi fengið þrjá hrávörurisa í Sviss í lið með sér til að upplýsa verðsamráðið. Hér er um að ræða Glencore Xstrata, Gunvor og Vitol Group. Bloomberg fréttaveitan hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum í þessum þremur fyrirtækjum að „þeir þekki til málsins“.

Rannsókn ESB hófst með látum í síðustu viku þegar húsleitir voru gerðar í höfuðstöðvum Statoil, BP og Shell. Þessi olíufélög eru grunuð um víðtækt samráð um að stjórna heimsmarkaðsverði á olíu undanfarin áratug. Sjá hér.

Verdens Gang hefur eftir Craig Pirrong forstjóra Alþjóðaorkustofnunar háskólans í Houston að þetta olíuhneyksli eigi eftir að verða stærra. Málið víkki út eftir því sem meira af tölvupóstum og fleiri gögnum koma til rannsóknar. „Við erum að tala um að stór hluti af öllum olíuviðskiptum í heiminum tengist þessu máli,“ segir Pirrong.

Fleiri olíufélög en þau þrjú sem nefnd eru hér að framan koma þegar við sögu í rannsókn ESB þótt ekki hafi verið farið í húsleitir hjá þeim. Þetta eru m.a. Neste Oil í Finnlandi og Argos Energy í Hollandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×