Viðskipti erlent

Danskir ellilífeyrisþegar eru orðnir yfir milljón talsins

Danir náðu þeim áfanga um síðustu áramót að fjöldi ellilífeyrisþega þar í landi fór yfir eina milljón einstaklinga.

Fjallað er um málið á vefsíðu börsen en þar er byggt á nýjum tölum frá dönsku hagstofunni. Fjöldi ellilífeyrisþega í Danmörku er orðinn hátt í 20% af heildaríbúafjölda landsins. Spár gera ráð fyrir að ellilífeyrisþegum muni fjölga hratt í landinu á næstum árum. Þeir verði orðnir 1,5 milljón talsins árið 2039 eða fjórðungur þjóðarinnar. Það sem meðal annars stuðlar að þessari þróun er lágt fæðingarhlutfall í Danmörku á undanförnum árum en hlutfallið er það lægsta sem þekkist á Norðurlöndunum.

Ef Danmörk er borin saman við Ísland kemur í ljós að hlutfall ellilífeyrisþega hérlendis var 10,9% í árslok árið 2011. Þeir voru 34.800 talsins á þeim tíma. Hér skal tekið fram að Íslendingar miða við 67 ára aldur varðandi greiðslur á ellilífeyri en Danir við 65 ára aldurinn þannig að samanburðurinn er ekki nákvæmur.

Í gögnum Tryggingastofnunnar má sjá að ellilífeyrisþegum á Íslandi hefur fjölgað nær stöðugt undanfarin 15 ár, Þannig var hlutfall þeirra 10,2% árið 1998, fór í 10,5% árið 2004 og var sem fyrr segir 10,9% í hitteðfyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×