Viðskipti erlent

Athina Onassis má ekki selja eyjuna Skorpios

Grísk stjórnvöld hafa stöðvað áform Athinu Onassis um að selja eyjuna Skorpios. Salan sé í andstöðu við þjóðarhagsmuni Grikklands.

Athina, sem er barnabarn skipakóngsins Aristoteles Onassis, ætlaði að selja Skorpios til rússnesks milljarðamærings á sem svarar rúmum 18 milljörðum kr.

Lögmenn gríska fjármálaeftirlitsins vísa hinsvegar í erfðaskrá Aristoteles en þar er að finna ákvæði um að eyjan skuli vera í eigu fjölskyldunnar svo lengi sem hún hefur efni á að eiga hana. Ef ekki eigi eignarhaldið að færast til gríska ríkisins.

Það er óumdeilt að hin 28 ára gamla Athina hefur efni á að eiga Skorpios enda er hún yngsti milljarðamæringur heimsins, mælt í dollurum.

Eyjan keypt árið 1962

Aristoteles Onassis keypti Skorpios árið 1962 og greiddi þá um 10.000 pund eða tæplega 1,9 milljónir kr. fyrir á gengi dagsins í dag. Eyjan komst síðan í sviðsljós fjölmiðla heimsins með hvelli sex árum síðar þegar Onassis giftist Jacqueline Kennedy, ekkju John F. Kennedy Bandaríkjaforseta, á henni.

Á eyjunni er grafreitur Onassis fjölskyldunnar til staðar. Þar er gröf Aristoteles og beggja barna hans, Alexander og Christinu sem var móðir Athenu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×