Viðskipti erlent

Bill Gates er aftur orðinn ríkasti maður heimsins

Bill Gates annar stofnenda Microsoft er aftur kominn á toppinn sem ríkasti maður heimsins.

Þetta kemur fram á nýjum lista Bloomberg fréttaveitunnar yfir helstu milljarðamæringa heimsins mælt í dollurum. Gates hefur ekki verið á toppi þessa lista síðan árið 2007. Mexíkaninn Carlos Slim fellur í annað sætið og ofurfjárfestirinn Warren Buffet er í þriðja sæti.

Auður Gates er metinn á 72,7 milljarða dollara eða rúmlega 8.900 milljarða kr. Hann er þar með orðinn rúmlega hálfum milljarði dollara ríkari en Carlos Slim. Á meðan auðæfi Gates hafa aukist um 10 milljarða dollara vegna góðs gengis Microsoft hefur auður Slim minnkað töluvert. Slim hefur byggt auð sinn að stórum hluta á einokun á farsímamarkaðinum í Mexíkó en þing landsins samþykkti nýlega lög sem binda eiga endi á þá einokun.

Þeir sem auðgast einna mest á milli ára eru Larry Page og Sergey Brin stofnendur Google en auður þeirra jókst um 22% og eru þeir komnir í 18. og 19. sætið á milljarðamæringalista Bloomberg. Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×