Viðskipti erlent

Treglega gengur að selja ríkiseignirnar

Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikklands, á leiðtogafundi Evrópusambandsins á mánudag. Leiðtogar Danmerkur og Þýskalands, þær Helle Thorning-Schmidt og Angela Merkel, eru skammt undan. nordicphotos/AFP
Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikklands, á leiðtogafundi Evrópusambandsins á mánudag. Leiðtogar Danmerkur og Þýskalands, þær Helle Thorning-Schmidt og Angela Merkel, eru skammt undan. nordicphotos/AFP
Grískum stjórnvöldum hefur gengið illa að standa við þá áætlun um samdrátt og aðhald í ríkisrekstri, sem er forsenda frekari fjárhagsaðstoðar frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Mun minni eftirspurn en vonast var til hefur verið eftir ríkisfyrirtækjum og öðrum ríkiseignum sem átti að selja. Einkabankar, sem hafa lánað Grikkjum, eru tregir til að semja um eftirgjöf skuldanna og segjast nú sjá fram á allt að 70 prósenta tap af eignum sínum.

Grikkir vonast til þess að á næstu dögum náist samkomulag við fulltrúa frá ESB og AGS, sem hafa verið í landinu undanfarna daga að ræða við stjórnvöld um næstu greiðslur.

Samkomulag, sem tókst á leiðtogafundi ESB á mánudag um stofnun varanlegs stöðugleikasjóðs og áform um stofnun fjármálabandalags gagnast Grikkjum lítt í þessum bráðavanda.

Hugmyndir Þjóðverja um að Evrópusambandið taki að sér umsjón með grísku fjárlögunum voru ekki rædd á leiðtogafundinum á mánudag, enda höfðu þau fengið afar hörð viðbrögð frá Grikkjum. - gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×