Viðskipti erlent

Neysla Dana á skyri hefur margfaldast á síðustu árum

Neysla Dana á skyri hefur margfaldast á síðustu árum. Þetta kemur fram í greiningu sem unnin var á vegum danska matvælarisans FDB sem á m.a. Coop verslunarkeðjuna.

Ef tekin er neyslan á skyri í Danmörku í marsmánuði árlega frá 2009 kemur í ljós að það ár borðuðu þrír af hverjum 10.000 Dönum skyr í morgunmat. Í ár eru þetta orðnir þrír af hverjum 1.000 Dönum þannig að neyslan hefur tífaldast á fjórum árum.

Það eru einkum íbúar í Kaupmannahöfn og á Norður Sjálandi sem borða skyr og einkum hámenntað og tekjuhátt fólk frekar en hinn almenni Dani.

Vegna þess hve mikið er borðað af skyri í Danmörku er það ekki lengur flutt inn frá Íslandi heldur framleitt af mjólkursamlögunum Thise Mejeri og Lögismose.

Í frétt um málið á vefsíðu danska ríkisútvarpsins segir að skyrið sé með lágt fituinnihald en mikið af próteinum og því mjög hollur matur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×