Viðskipti erlent

Byggja hæsta skýjakljúf heimsins á aðeins 90 dögum

Kínverski byggingaverktakinn BSB ætlar að byggja hæsta skýjakljúf í heiminum á aðeins 90 dögum.

Um er að ræða háhýsi upp á 220 hæðir með 104 lyftum.  Í því verður til staðar skóli, sjúkrahús, verslanir og íbúðir fyrir 30.000 manns. Húsið hefur fengið nafn við hæfi og heitir Sky City eða Skýjaborgin.

Skýjaborg þessi verður 838 metrar á hæð eða átta metrum hærri en Burj Khalifa skýjakljúfurinn í Dubai sem er hæsta bygging heimsins sem stendur.

Í umfjöllun um málið í börsen segir að Skýjaborgin verði reist í Hunan héraði og mun BSB fyrst byggja risastórar einingar sem síðan verða settar saman á byggingarstað.

BSB hefur sérhæft sig í þessum byggingarmáta, það er smíði risavaxinna húseininga sem settar eru saman á byggingastaðnum. Þannig reisti verktakinn nýlega 15 hæða hótel á aðeins tveimur dögum og 30 hæða byggingu á aðeins 15 dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×