Viðskipti erlent

Tekjur og hagnaður Actavis aukast á þessu ári

Tekjur Actavis á þessu ári munu nema yfir 2,6 milljörðum dollara eða 324 milljörðum króna á þessu ári en þær námu 2,5 milljörðum dollara á síðasta ári.

Claudio Albrecht forstjóri Actavis segir í viðtali við Reuters að hagnaður félagsins muni aukast töluvert í ár frá fyrra ári eða um tveggja stafa prósentutölu.

Velgengi Actavis skýrist einkum af mikilli eftirspurn í Bandaríkjunum sem og á mörkuðum í Austurlöndum fjær.

Eins og kunnugt er af fréttum hefur lyfjafyrirtækið Watson fest kaup á Actavis og í frétt Reuters segir að salan hjá hinu sameinaða fyrirtæki stefni í 7,8 milljarða dollara á þessu ári.

Fram kemur í viðtalinu að Claudio Albrecht muni láta af störfum sem forstjóri Actavis í næsta mánuði ásamt reyndu stjórnendateymi sínu. Þessi hópur sé nú að leita sér að öðrum verkefnum á alþjóðavettvangi enda um "þrauteynda atvinnumenn" að ræða eins og Albrecht orðar það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×