Viðskipti erlent

Botnæta frá Wall Street hyggst græða á spænskum fasteignum

Fjárfestirinn Wilbur Ross einn af auðugustu mönnum Bandaríkjanna hugsar sér til hreyfings á spænska fasteignamarkaðinum enda telur hann hægt að gera reyfarakaup þar í augnablikinu.

Ross er það sem kallast botnæta á Wall Street en hann sérhæfir sig í kaupum á löskuðum eða rotnandi eignum og kemur þeim síðan aftur í verð þegar markaðsaðstæður batna.

Hann einbeitir sér einkum að fasteignum og bönkum. Sem dæmi má nefna á hann 10% í Bank of Ireland og hann keypti stóran hlut í hinum gjaldþrota Northen Rock banka í Bretlandi.

Í frétt um málið í börsen segir að Ross líti nú hýru auga á fasteignamarkaðinn á Spáni sem hrundi í fjármálakreppunni og hefur ekki náð sér á strik síðan.

Samhliða áhuga Ross á þessum markaði berast fréttir um það að spænsk yfirvöld ætli að losa banka landsins við um 180 milljarða evra virði af ónýtum fasteigalánum og koma þeim fyrir í sérstöku félagi.

Sjálfur segir Ross að hann sé reiðubúinn að veðja á að þessi markaður muni rétta úr kútnum í náinni framtíð.

Ross hefur hagnast vel á botnáti sínu hingað til. Hann er á miðjum Forbes 400 listanum en persónulegur auður hans nemur nær 300 milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×