Fótbolti

Það fór að heillirigna á stelpurnar á síðustu æfingunni fyrir leik

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Mynd/ÓskarÓ
Íslenska kvennalandsliðið fékk óblíðar viðtökur hjá veðurguðunum á á Ullevaal-leikvanginum í Osló í dag þegar stelpurnar voru á síðustu æfingu sinni fyrir lokaleik sinn í riðlakeppninni sem verður á móti Noregi á morgun. Íslenska liðinu nægir jafntefli til þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni í Svíþjóð næsta sumar.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, og stelpurnar gáfu færi á viðtölum fyrir æfingu og svo var byrjað á léttri upphitun með Guðna Kjartanssyni, aðstoðarlandsliðsþjálfara. Fljótlega fóru að heyrast þrumur og eftir fimmtán mínútur fór að heillirigna á okkar stelpur.

Sigurður Ragnar þurfti að senda stelpurnar inn í regnjakka en engin smá rigning í gangi. Blaðamenn fengu ekki að vera nema fyrstu fimmtán mínúturnar á æfingunni en sem betur fer fyrir stelpurnar þá entist demban ekki lengi og þær gátu farið að huga að lokaundirbúningi fyrir leikinn á morgun.

Þetta er vonandi góður fyrirboði fyrir leikinn við Noreg á morgun og það var augljóst á öllum leikmönnum íslenska liðsins á æfingunni í dag að þær sætta sig við ekkert annað á morgun en að koma Íslandi á annað Evrópumótið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×