Viðskipti erlent

Nokia kynnir Lumia 920

Lumia 920.
Lumia 920. mynd/Nokia
Finnski raftækjaframleiðandinn Nokia kynnti nýjasta snjallsíma sinn í New York í dag. Fyrirtækið leggur nú allt í sölurnar til að endurheima stað sinn á farsímamarkaðinum.

Snjallsíminn, sem kallaður er Lumia 920, þykir mikið tækniafrek. Hann er knúinn af nýjasta stýrikerfi Microsoft, Windows Phone 8, og er búinn 1.5GHz örgjörva frá Qualcomm. Þá er snjallsíminn sá fyrsti sem styður þráðlausa hleðslu.

Myndavél Lumia 920 er 8.7 megapixlar og er hún byggð á PureView tækninni sem Nokia hefur haft í þróun síðustu misseri. Umgjörð símans er úr plexi og snertiskjárinn, sem er 4.5 tommur, styður Pure Motion HD+.

Nokia bindur miklar vonir við snjallsímann en fyrirtækið hefur átt erfitt uppdráttar á snjallsímamarkaðinum undanfarin ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×