Viðskipti erlent

Grikkir hafa ekki lengur efni á að borga mútur til embættismanna

Verulega hefur dregið úr mútugreiðslum til embættismanna í Grikklandi undanfarin ár. Ástæðan er sú að grískur almenningur hefur ekki lengur efni á þessum greiðslum.

Fjallað er um málið á Reuters en þar segir að grískur almenningur sé nú orðin svo grátt leikinn af kreppunni að embættismenn fá ekki lengur umslög með reiðufé undir borðið.

Þessi umslög sem kölluð hafa verið fakelaki, eru afhent þegar einhver þarf að leita sér aðstoðar hjá hinu opinbera, hvort sem það er læknishjálp eða beiðni um lægri skatta.

Grikkir hafa barist árum saman við spillingu og mútugreiðslur í landinu en án mikils árangurs. Spillingin og múturnar hafa hindrað mjög að stjórnvöld geti farið að óskum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins um niðurskurð og sparnað í ríkisrekstrinum.

Múturnar eru algengastar í heilbrigðisgeiranum og hjá skattayfirvöldum. Sem dæmi um lítinn árangur í baráttunni gegn þessari skuggahlið grísks þjóðlífs má nefna að af rúmlega 1.400 rannsóknum á mútum og spillingu í fyrra enduðu aðeins tæplega 400 mál fyrir dómstólum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×