Viðskipti erlent

Bandaríska póstþjónustan stefnir í gjaldþrot

Sögulegt gjaldþrot er framundan í Bandaríkjunum og jafnframt það fyrsta í langri sögu bandarísku póstþjónustunnar.

Þann fyrsta ágúst n.k. á bandaríska póstþjónustan að standa skil á greiðslu á 5,5 milljörðum dollara vegna framtíðarskuldbindinga gagnvart lífeyrissjóðum starfsmann sinna. Þetta fé á póstþjónustan ekki til sökum mikils taprekstrar á undanförnum árum. Þetta greiðslufall mun þó ekki hafa áhrif á starfi þjónustunnar í fyrstu.

Bandaríska póstþjónustan er sjálfstæð opinber stofnun og undir venjulegum kringumstæðum myndi bandaríska þingið hlaupa undir bagga með henni. Hinsvegar er bandaríska þingið að fara í sitt árlega sumarfrí í ágúst og engar líkur eru á að vandamál póstþjónustunnar verði leyst þar fyrir mánaðarmótin.

Bandaríska póstþjónustan getur rakið sögu sína aftur til ársins 1775 þegar Benjamin Franklin var útnefndur sem fyrsti póstmeistari Bandaríkjanna. Þetta verður í fyrsta sinn í allri þeirri sögu að póstþjónustan getur ekki greitt reikninga sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×