Viðskipti erlent

ECB lokar á lánveitingar til grískra banka

Evrópski seðlabankinn (ECB) hefur ákveðið að taka ekki lengur við grískum ríkisskuldabréfum sem veðum fyrir lánum til grískra banka.

Þetta gæti leitt til þess að bankakerfið í Grikklandi muni hrynja eins og það leggur sig. Fjallað er um málið á vefsíðu börsen. Þar segir að ECB hafi tilkynnt grísku bönkunum að þeir yrðu að leita til gríska seðlabankans ef þá skorti lausafé.

ECB segir að hann muni ekki taka við grískum ríkisskuldabréfum að nýju fyrr en að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) og Evrópusambandið (ESB) hafi samþykkt frekari neyðarlán til Grikklands.

Eins og fram hefur komið í fréttum eru litlar líkur á því að frekari neyðaraðstoð verði til reiðu fyrir Grikkland í náinni framtíð. Áður en slíkt gerist verða grísk stjórnvöld að framkvæma eitthvað af þeim niðurskurðar- og hagræðingaráformum sem búið er að samþykkja.

Komið er inn á þetta í umfjöllun börsen en þar segir að Grikkir hafi lofað AGS og ESB ýmsum aðgerðum en efndir á þeim loforðum hafa verið litlar sem engar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×