Viðskipti erlent

Ákærur vegna Libor-hneykslisins í farvatninu

BBI skrifar
Bob Diamond, bankastjóri Barclays sagði af sér.
Bob Diamond, bankastjóri Barclays sagði af sér.
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna er að undirbúa málaferli gegn fjármálastofnunum og starfsmönnum þeirra vegna LIBOR-hneykslisins. Meira en 10 stórir bankar í Bandaríkjunum og Bretlandi eru í skotlínunni. Frá þessu er greint í fréttum The New York Times.

Libor-hneykslið snýst um að stórir bankar sem höfðu áhrif á þróun millibankavaxta sem nefnast Libor gáfu upp rangar tölur þegar vextirnir voru ákveðnir. Libor vextirnir hafa gríðarleg áhrif á fjármálamarkaði, þeir eru ákveðinn hornsteinn í viðskiptum heimsins, m.a. miðuðu flest gengistryggð lán á Íslandi við þá.

Rannsóknir á því sem fram fór varðandi Libor vextina eru ekki langt á veg komnar og menn búast helst við að fleiri bankar muni flækjast í málið, en nú þegar hefur fyrrum forstjóri Barklays sagt af sér og bankinn verið sektaður um háar fjárhæðir.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna vill meina að saknæm háttsemi hafi átt sér stað og undirbýr sakamálasókn. Búist er við að ákæra verði lögð fram síðar á árinu gegn minnst einum banka. Möguleikinn á sakamálasókn mun eflaust skekja bankastarfsemi í heiminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×