Viðskipti erlent

Kínverjar byggja draugaborg í Angóla

Draugaborgir eru þekkt fyrirbrigði í Kína en nú hafa Kínverjar byggt eina slíka í Angóla í Afríku.

Borgin sem hér um ræðir heitir Kilamba og er á stærð við Osló höfuðborg Noregs. Það kostaði um 3,5 milljarða dollara eða vel yfir 400 milljarða króna að byggja hana. Vandamálið er að enginn íbúi er enn fluttur inn. Það stafar af því að borgin er ætluð fyrir miðstéttarfólk en slíkt fólk finnst varla í Angóla. Megnið af íbúum landsins lifa langt undir fátæktarmörkum eða á því sem, svarar til 250 króna á dag.

Nýju íbúðirnar í Kilamba kosta á bilinu 15 til 24 milljónir króna sem eru stjarnfræðilegar upphæðir fyrir almenning í Angóla. Það var byggingafyrirtæki í eigu hins opinbera í Kína sem byggði borgina en Angóla sér Kína fyrir stórum hluta af hráolíu þeirri sem Kínverjar nota.

Bygging hennar er liður í áætlunum forseta landsins að byggja milljón nýjar íbúðir í landinu á fjórum árum. Forsetinn mun enn telja að þær áætlanir gangi vel að því er segir í umfjöllun BBC um þetta mál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×