Viðskipti erlent

Skuldabréfaútgáfa spænska ríkisins á ríflega 4 prósent vöxtum

Spænska ríkið lauk í dag við skuldabréfaútgáfu upp á liðlega 2,5 milljarða evra á að meðaltali 4,04 prósent vöxtum, að því er breska ríkisútvarpið BBC greindi frá í dag. Það eru töluvert hærri vextir en ríkinu bauðst í síðustu útgáfu en þá voru vextirnir 2,6 prósent.

Útgáfa spænska ríkisins þykir þó að hafa heppnast vel, þar sem jafnvel var búist við að vaxtakjörin yrðu verri en raunin varð, sem hefði grafið enn frekar undan trausti á fjárhag ríkisins.

Staða efnahagsmála á Spáni þykir grafalvarleg, en einkum er það mikið atvinnuleysi sem veldur vandræðum en það mælist nú ríflega 24 prósent. Hjá ungu fólki er staðan sérstaklega slæm, en atvinnuleysi á meðal fólks á aldrinum 18 til 30 ára er nú nálægt 50 prósent.

Reiknað er með því að atvinnuleysi eigi enn eftir að aukast á Spáni, þar sem niðurskurðaraðgerðir spænskra stjórnvalda eru enn ekki komnar til framkvæmda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×