Viðskipti erlent

Walker tryggir sér milljarð punda til að kaupa Iceland

Malcolm Walker forstjóri Iceland Foods verslunarkeðjunnar hefur tryggt sér einn milljarð punda, eða rúmlega 193 milljarða kr. í lánsfé til kaupanna á keðjunni.

Fjallað er um málið í Sunday Times í dag. Þar segir að það sé kanadískur lífeyrissjóður, Alberta Investment Management Corp., sem standi á bakvið þetta lán til Walkers.

Í Sunday Times er haft eftir Walker að hann, og stjórnendateymi hans hjá Iceland, muni kaupa keðjuna ef rétt verð fáist fyrir hana. „Ef ekki munum við selja hlut okkar og snúa okkur að einhverju öðru," segir hann.

Walker og stjórnendur Iceland eiga um 23% hlut í Iceland. Walker getur hinsvegar jafnað og gengið inn í hæsta tilboðið í Iceland ef hann vill. Skilanefnir Landsbankans og Glitnis vilja fá tilboð upp á 1,5 milljarða punda í keðjuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×