Viðskipti erlent

Stálheppinn auðmaður tekur slaginn gegn Putin

Rússneski auðmannurinn Mikhail Prokhorov, sem ætlar að bjóða sig fram gegn Vladimir Putin í forsetakosningum í Rússlandi á næsta ári, á að baki brokkgenga fortíð eins og fleiri rússneskir auðmenn.

Prokhorov er þriðji auðugasti Rússinn og raunar í hópi 40 auðugustu manna heimsins. Tímaritið Forbes áætlar að auðæfi hans nemi um 18 milljörðum dollara eða tæplega 2.200 milljörðum króna.

Prokhorov hóf að byggja upp veldi sitt í kjölfar hruns Sovétríkjanna fyrir tæpum 20 árum síðan, einkum með því að eignast námufélög og málmvinnslur. Hann var um tíma ráðherra í stjórn Boris Jeltsín og notfærði sér þá aðstöðu óspart til að safna að sér eignum.

Hann komst í sviðsljós fjölmiðla á Vesturlöndum árið 2007 þegar hann var handtekinn í franska skíðabænum Courchevel vegna gruns um mannsal og rekstur á vændiskonum en var síðan sleppt án ákæru.

Prokhorov þykir stálheppinn í viðskiptum því hann náði að selja hlut sinn í málmvinnslunni Norlisk Nickel áður en kreppan skall á árið 2008 fyrir 7 milljarða dollara út í hönd og 14% hlut í Rusal, stærsta álfyrirtækis heimsins. Hann mun þurfa á þeirri heppni að halda til að eiga möguleika gegn Putin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×