Lífið

Tónleikar fyrir börnin ungu

Maximús Músikús. Á morgun gefst öllum kostur á að heyra og sjá þetta nýja ævintýri en haldnir verða tvennir fjölskyldutónleikar kl. 14 og 17
Maximús Músikús. Á morgun gefst öllum kostur á að heyra og sjá þetta nýja ævintýri en haldnir verða tvennir fjölskyldutónleikar kl. 14 og 17

Í dag þyrpast börn á leikskólaaldri í Háskólabíó og kynnast glænýrri sögu um hetjuna Maxímús Músíkús sem segir frá því þegar músin kemst í tónlistarskóla og kynnist þar ýmsum nýjum fyrirbærum, hljóðfærum af ýmsu tagi. Í hverju horni tónlistarskólans er æft og börnin eru öll afar spennt og kát því þeirra bíður sú þraut að spila með heilli sinfóníu.

Heimsókn leikskólabarna hófst með tvennum tónleikum í gær og á morgun gefst foreldrum tækifæri til að sækja Sinfóníuna. Með hljómsveitinni koma fram ungir og efnilegir einleikarar og hópar tónlistarnema sem leika með hljómsveitinni, en inn á milli hljóma dillandi dansar þar sem Sinfóníuhljómsveitin er í aðalhlutverki. Sögumaður er Valur Freyr Einarsson leikari og Daníel Bjarnason heldur um tónsprotann.

Tveir félagar Sinfóníuhljómsveitarinnar, Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari og Þórarinn Már Baldursson víóluleikari, skópu Maxímús og eru enn að senda hann í ný ævintýri. Fyrsta bókin og geisladiskurinn um Maxímús Músíkús nutu gríðarlegra vinsælda. Auk þess að hljóta fjölda verðlauna hefur bókin nú verið gefin út á mörgum tungumálum. Þess má einnig geta að stórar erlendar sinfóníuhjómsveitir hafa sett Maxímús Músíkús á dagskrá hjá sér.

Á morgun gefst svo öllum kostur á að heyra og sjá þetta nýja ævintýri en haldnir verða tvennir fjölskyldutónleikar kl. 14 og 17. Hægt er að nálgast miða í miðasölu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og á sinfonia.is. - pbb










Fleiri fréttir

Sjá meira


×