Viðskipti erlent

Mike Shearwood ráðinn forstjóri Aurora

Aurora Fashions hefur ráðið Mike Shearwood í stöðu forstjóra. Hann tekur við stöðunni af Derek Lovelock sem aftur er orðinn stjórnarformaður félagsins. Sem kunnugt er af fréttum er Aurora nú að stórum hluta í eigu Kaupþings og hefur verið það síðan í mars s.l. Meðeigendur Kaupþings eru fyrrum stjórnendur Mosaic Fashions.

Aurora á nú tískuverslunarkeðjurnar Karen Millen, Coast, Oasis og Warehouse. Í frétt um ráðningu Shearwood á vefsíðunni Retailweek segir að árleg velta Aurora sé nú 720 milljónir punda og að skuldir nemi um 110 milljónum punda. Þá er lausafjárstaða félagsins sögð sterk.

Aurora rekur nú samtals 1.427 verslanir í 45 löndum. Rekstur félagsins á fyrri árshelmingi ársins er betri en áætlanir Kaupþings gerðu ráð fyrir þegar bankinn yfirtók reksturinn í mars s.l.

Shearwood kom til Mosaic Fashions, undanfara Aurora, í september árið 2007 og hefur starfað sem aðstoðarforstjóri félagsins síðan. Hann segir að það sé spennandi að taka við rekstrinum á þessum tímapunkti. Mikið hafi áunnist á síðustu sex mánuðum og frekari vöxtur sé framundan.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×