Viðskipti erlent

Sjælsö breytir lánum til Property Group í eignarhluta

Eitt af atriðunum við endurskipulagningu á Property Group í Danmörku er að Sjælsö Gruppen hefur ákveðið að breyta lánum til Property Group yfir í eignarhluta. Um er að ræða 300 milljónir danskra kr. eða um 7,3 milljarða kr.

Þrotabú Samson á nú 15% í Sjælsö Gruppen en sá hlutur var áður í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Skilanefnd Straums fer svo aftur með stóran eignarhlut í Property Group.

Forsaga málsins er sú, samkvæmt frétt í Jyllands Posten, að árið 2007 seldi Sjælsö töluvert af byggingarverkefnum í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi til Property. Afhending þeirra var á árunum 2008 til 2009 eftir því sem verkefnunum lauk.

Property lenti í síðan í fjárhagsvandræðum og gat ekki staðið við sinn hluta af samningunum. Sjælsö valdi þá í fyrra að láta hluta af söluandvirðinu standa eftir í Property sem lán í staðinn að reyna að selja sig út úr verkefnunum í erfiðum markaðsaðstæðum.

Liður í endurskipulagningu Property Group að öðru leyti felst í því að eignasafni þess er skutlað inn í Nordic Property Assets sem þýðir að heildareignir Nordic Property munu nema 2,5 milljörðum danskra kr. eða rúmlega 60 milljarða kr. Sjælsö hefur ákveðið að breyta um 15% af því sem það á inni hjá Property Group yfir í hlut í Nordic Property. Er þetta gert til að tryggja aðgang Sjælsö að endurgreiðslum fyrir fyrrgreind verkefni þegar markaðs- og fjármálaaðstæður leyfa.

Sjælsö á nú ca. 31% af Nordic Property Assets.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×