Viðskipti erlent

Risabónusar bíða eftir strákunum á Wall Street

Stærstu bankar og fjármálafyrirtæki Bandaríkjanna eru á leiðinni að borga starfsfólki sínu launabónusa upp á samtals um 140 milljarða dollara eða rúmlega 17.000 milljarða kr. Þetta er metupphæð og sýnir að öll umræðan um að lækka þessar bónusgreiðslur í kjölfar kreppunnar hefur ekkert haft að segja.

Samkvæmt umfjöllun um málið í Wall Street Journal (WSJ) á starfsfólk í 23 af stærstu bönkum og fjármálafyrirtækjum Bandaríkjanna von á hærri bónusgreiðslum en það fékk árið 2007 þegar þessar greiðslur náðu hámarki.

Meðallaun alls starfsfólk í fyrrgreindum fyrirtækjum varða samkvæmt útreikningum WSJ rúmlega 143.000 dollarar eða tæplega 18 milljónir kr. í árslaun í ár. Þetta eru 2.000 dollurum hærri árslaun en árið 2007.

WSJ segir að þessar greiðslur endurspegli að bandarískir stórbankar hafi verið snöggir til að finna réttar tekjurleiðir í kjölfar hrunsins í september í fyrra. Samanlögð velta þessara fyrirtækja muni nema 437 milljörðum dollara í ár en hún nam 345 milljörðum dollara árið 2007.

Fram kemur í WSJ að bónusmenningin í bönkunum og fjármálafyrirtækjum hafi verið talin ein af orsökum fyrir hruninu í fyrra. Harðari reglur gegn bónusgreiðslum síðan þá virðast aðeins hafa breytt því hve háar þessar greiðslur eru en ekki hvernig þeim er skipt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×