Viðskipti erlent

House of Fraser hyggur á útrás frá Bretlandi

Breska tískuverslunarkeðjan House of Fraser (HoF)hyggur nú á útrás frá Bretlandi og er að skipuleggja opnanir á nýjum verslunum í öðrum löndum. Samkvæmt frétt um málið í Retailweek er unnið að þessu samkvæmt þriggja ára áætlun sem eigandi HoF, Highland Group, hefur sett saman.

House of Fraser er að stórum hluta í eigu Landsbankans og Glitnis og þar af heldur skilanefnd Landsbankans um tæplega 35% hlut í keðjunni í gegnum Highland Group.

HoF skilaði góðum hagnaði á fyrri helmingi ársins eða tæpum 11 milljónum punda fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Þetta er 16% meiri hagnaði en á sama tímabili í fyrra. Þá hefur keðjan náð að minnka skuldir sínar á tímabilinu um 21 milljón punda eða ríflega 4 milljarða kr.

Í frétt Retailweek segir John King forstjóri Highland Group að þeir eigi nú í viðræðum við tvo áhugasama aðila um að flytja vörumerkið Westfield London til annarra landa. King vildi hinsvegar ekki segja til um hvað lönd væri að ræða.

Það hefur áður komið fram hjá stjórnarformanninum, Don McCarthy, að Miðausturlönd væru það svæði sem gætu verið ákjósanleg fyrir keðjuna.

Þá kemur fram í fréttinni að ætlunin sé að opna netverslun HoF á 65 mörkuðum í nóvember n.k.

Ennfremur er það áréttað að íslensku eigendurnir að Highland Group muni ekki selja hluti sína fyrr en gott verð fáist fyrir þá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×