Innlent

Nágrönnum ofbýður yfirfullir nytjagámar

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Fatnaður af ýmsum toga leyndist í hrúgunni. Eigandi ætlaði þeim annað líf
hjá nauðþurftafólki en fötin enda væntanlega í ruslinu.
Fatnaður af ýmsum toga leyndist í hrúgunni. Eigandi ætlaði þeim annað líf hjá nauðþurftafólki en fötin enda væntanlega í ruslinu. fréttablaðið/anton brink
Brjóstahaldarar, íþróttaskór og annar heillegur fatnaður liggur eins og hráviði í götunni við grenndarstöð Sorpu í Gnoðarvogi.

Nágrannar segjast komnir með nóg af slæmri umgengni sem helgast af því hversu sjaldan gámarnir eru tæmdir.

„Umgengnin á þessu er svo rosaleg að það nær ekki nokkru lagi. Við erum að þrífa garðinn hérna annan hvern dag ef það hreyfir vind. Það er gengið svo illa um þetta og gámurinn ekki losaður heldur,“ segir nágranni grenndarstöðvarinnar sem hafði samband við Fréttablaðið. Blaðamaður fór á vettvang á mánudag og það var ekki orðum aukið.

Endurvinnslu- og fatasöfnunargámar allir barmafullir og letilegar tilraunir fólks til að koma rusli og fatagjöfum áleiðis þrátt fyrir það gjörsamlega misheppnaðar. Íbúinn segir fatasöfnunargám Rauða krossins ekki hafa verið tæmdan lengi. Þegar fólk komi svo ekki meiru ofan í hann leggi það fatapoka fyrir framan. Slíkar tilraunir enda með ósköpum.

„Svo koma greinilega einhverjir, opna poka, hrista úr þessu og þetta liggur eins og hráviði um allt. Okkur of býður þetta alveg.“

Ástandið við endurvinnslugámana er litlu skárra. Þeir séu yfirleitt fljótir að fyllast og svo fýkur ruslið inn í nærliggjandi garða og svæði. Athugun blaðamanns staðfesti að svæðið í kringum grenndarstöðina mætti í besta falli teljast sóðalega og illa hirt.

„En fatagámurinn er kjaftfullur og það kemst ekki ein drusla í hann til viðbótar. Það er alltaf verið að tala um að fólk sé að sóa og henda svo miklu svo að það reynir að gefa. En það verður ekkert úr þessu svona,“ segir íbúinn langþreyttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×