Lífið

Fyrsta hinsegin Disneypersónan í endurgerð af Fríðu og Dýrinu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Emma Watson fer með hlutverk Fríðu í nýju myndinni.
Emma Watson fer með hlutverk Fríðu í nýju myndinni. Vísir/Skjáskot
Margir bíða spenntir eftir endurgerðinni af Fríðu og Dýrinu sem væntanleg er í kvikmyndahús um allan heim á næstunni.

Nú hefur Bill Condon, leikstjóri myndarinnar, svipt hulunni af því að í myndinni leynist fyrsta opinberlega samkynhneigða persónan í sögu Disney. Það mun vera LeFou, vinur hins smeðjulega Gaston. Josh Gad fer með hlutverk LeFou í myndinni.

„LeFou vill einn daginn vera eins og Gaston og annan daginn vill hann kyssa Gaston,“ segir Condon í samtali við Attitude.

„Hann er ekki viss um hvað hann vill. Hann er að átta sig á því að hann hefur þessar tilfinningar. Og Josh fer með það af kostgæfni. Og á endanum borgar það sig. Ég vil ekki gefa allt upp en það er falleg, samkynhneigð sena í Disney mynd.“

Matt Cain, aðalritstjóri Attitude, segir að um tímamótastund sé að ræða.

„Þetta tók sinn tíma en þetta er tímamótastund í sögu Disney,“ segir Cain.

„Með því að sýna samkynja ást er stúdíóið að senda skilaboð um að þetta sé náttúruleg og eðlilegt – og þau skilaboð munu heyrast um allan heim, jafnvel í löndum þar sem enn er félagslega óviðurkennt og jafnvel ólöglegt að vera samkynhneigður.“

Kvikmyndin er frumsýnd hér á landi þann 17. mars næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×