Lífið

Þetta er allt gert með hjartanu

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Atli Rafn
Atli Rafn Vísir/Ernir
„Já, Ólafur Darri var bara upptekinn og þá var leitað til mín í staðinn sem var virkilega ánægjulegt, handritið kveikti í mér. Þetta er skemmtilegt tækifæri til að leika svona algjört aðalhlutverk," segir Atli Rafn Sigurðarson, sem bíður þess að hans fyrsta aðalhlutverk í kvikmynd líti dagsins ljós.

„Við Ólafur Darri erum kannski ekki líkir, en við erum báðir mjög góðir leikarar, svo við erum líkir að því leyti,“ segir Atli Rafn og skellir upp úr.

Atli Rafn var valinn í hlutverkið eftir að Ólafur Darri varð frá að hverfa þegar tökudagarnir rákust á við verkefni hans vestanhafs. Það er óhætt að taka undir með Atla Rafni, vissulega eru þeir kollegar eins ólíkir og hugsast getur en eiga það sameiginlegt að geta tekið að sér hlutverk af þessari stærðargráðu án nokkurra vandræða.

Um er að ræða hlutverk í kvikmyndinni Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson. Þar fer Atli Rafn með hlutverk Hrings, aðalsögupersónunnar eins og áður segir, í þessari dramatísku kómedíu þar sem sambönd og samskipti eru höfð í hávegum. Auk Atla Rafns fara þær Nanna Kristín Magnúsdóttir og Gríma Kristjánsdóttir með stórar rullur í myndinni.

„Þetta er á köflum eins og Woody Allen-mynd sem drifin er áfram af skemmtilegum samtölum og frábærum persónum. Myndin fjallar aðallega um samband Hrings við Elsu sem er leikin af Nönnu Kristínu. Samband þeirra hangir á bláþræði og þau, ásamt dóttur sinni, eru komin langleiðina með að finna draumahúsið sitt þegar öll plön fara úr skorðum. Sagan er um klárt fólk sem hagar sér ekki eins og klárt fólk, svona dálítið eins og lífið er,“ útskýrir Atli Rafn.

Reykjavík er fyrsta mynd Ásgríms Sverrissonar kvikmyndaleikstjóra en honum var boðið að kynna kvikmynd sína Reykjavík á kvikmyndahátíð sem haldin er í Gautaborg í dag. Þar kemur hann til með að kynna myndina fyrir söluaðilum og öðrum hátíðum.

„Það er æðislegt að fá að taka þátt í fyrsta verkefni Ása, forsendurnar sem liggja að baki myndarinnar eru mjög fallegar, þetta er allt gert með hjartanu. Ferlið í heild sinni var ánægjulegt og gaman að vinna með honum og félaga hans, Néstor Calvo, en hann stjórnaði tökum í myndinni. Néstor er reynslubolti í rómanska kvikmyndaheiminum og hann hefur tekið þátt í helling af kvikmyndum,“ bendir Atli Rafn á.

Ásamt því að leika í kvikmyndum hefur Atli Rafn verið áberandi á fjölum Þjóðleikhússins undanfarið. Nýjasta verkefnið hans er Djöflaeyjan þar sem hann er í hlutverki aðstoðarleikstjóra ásamt Baltasar Kormáki.

„Ég ákvað að hvíla mig á því að leika þennan vetur, það er búið að vera mjög mikið að gera og ég búinn að leika mörg stór hlutverk síðustu ár. Maður þarf að stíga út fyrir til að hafa næga orku og gleði til að halda áfram,“ segir Atli Rafn að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×