Viðskipti erlent

McDonald neitar að reka trúð sinn

„Ronald McDonald fer hvergi,“ þannig hljóða skilaboðin frá stjórn McDonald hamborgarakeðjunnar eftir að um 550 heilbrigðissamtök, stofnanir og sérfræðingar fóru að beita keðjuna þrýstingi um að losa sig við trúð sinn Ronald. Ástæðan fyrir þessum þrýstingi er að trúðurinn er talin slæm fyrirmynd fyrir börn.

Gagnrýni fyrrgreindra aðila á Ronald gengur út á að trúðurinn markaðssetur óhollt ruslfæði handa börnum. Þrýstingurinn var svo tilkominn til að fá McDonald til að viðurkenna sinn þátt í offitu barna og óheilbrigði þeirra, að því er segir í frétt BBC um málið.

Stjórn McDonald heldur því fram að keðjan bjóði upp á fjölbreytt úrval af mat með upplýsingum um næringargildi hans. Þá setji keðjan fram ábyrgar auglýsingar þar sem tekið er tillit til aldurs barna í markaðssetningunni. Ennfremur sé Ronald sendiherra keðjunnar þegar kemur að þeim góðgerðarsamtökum sem McDonald styrkir.

Það eru samtökin Corporate Accountability Organisation sem standa á bakvið þrýstinginn á að trúðurinn Ronald verði rekinn úr starfi. Þessi samtök eru þekkt fyrir baráttu sína í að fá framleiðendur Camel sígaretta til að fella út fígúruna Joe the Camel úr auglýsingum sínum. Sú barátta gekk upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×