Innlent

Baldur greiddi fjórðung kostnaðar við fram­boð sitt sjálfur

Kjartan Kjartansson skrifar
Baldur Þórhallsson var í fimmta sæti í forsetakosningunum í sumar.
Baldur Þórhallsson var í fimmta sæti í forsetakosningunum í sumar. Vísir/Vilhelm

Tæpur fjórðungur af heildarkostnaði við forsetaframboð Baldurs Þórhallssonar kom úr hans eigin vasa. Kostnaðurinn nam tæpum 20,4 milljónum króna en framboðið endurgreiddi styrki sem fóru umfram lögbundið hámark.

Baldur lagði framboði sínu til 4,9 milljónir króna samkvæmt uppgjöri sem birt var á vef ríkisendurskoðunar í dag. Einstaklingar styrktu það um 7,3 milljónir króna og lögaðilar um 5,7 milljónir. Þá hafði framboðið um 2,3 milljónir króna upp úr sölu á varningi.

Meirihluti kostnaðar framboðsins var vegna kaupa á auglýsingum, alls 9,6 milljónir króna. Þá keypti framboðið þjónustu fyrir rúmar sjö milljónir.

Alls hlaut Baldur 18.030 atkvæði í kosningunum og hafnaði í fimmta sæti frambjóðenda. Hvert atkvæði kostaði hann 1.132 krónur.

Á meðal lögaðila sem styrktu Baldur til forseta voru sælgætisgerðin Góa, Ölgerðin, Kjarnafæði, Atlantsolía og Lyf og heilsa. Tveir einstaklingar gáfu framboðinu meira en 300.000 krónur. Hámarksupphæð sem einstaklingar og lögaðilar mega gefa er 400.000 krónur. 

Framboð Baldurs var það síðasta sem fékk uppgjör sitt staðfest en ástæðan var athugasemdir sem gerðar voru við styrki frá nokkrum félögum. Þannig voru tvö dæmi um að tvö tengd félög hefðu gefið hámarksupphæð þrátt fyrir að þeim bæri að telja framlög sín saman. Þau gáfu þannig tvöfalt meira en þeim var heimilt. Framboðið endurgreiddi þeim samtals 800.000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×