Glamour

"Umræðan er orðin svo hatursfull og sjúk.“

Ritstjórn skrifar
samsett mynd
Það sem fram fer á Internetinu er geymt en aldrei gleymt. Heimurinn hefur breyst hratt á undanförnum árum þar sem netmiðlar og vinsælir samfélagsmiðlar hafa gefið hverjum sem vill sína eigin rödd.

Skiptar skoðanir eru um ágæti þess enda gefur þetta nettröllum og neteinelti í skjóli nafnleyndar byr undir báða vængi. Hvernig líður þeim sem verða fyrir barðinu á dónalegum niðrandi athugasemdum og svívirðingum á internetinu og hvernig fólk er það sem situr í skjóli tölvuskjáa og lætur gamminn geisa með persónulegum árásum í garð ókunnugra? Eru kommentakerfi mikilvægur partur af samfélagsumræðu eða svartur blettur á annars frábærum kostum internetsins? Glamour kannaði málið í nýjasta tölublaðinu sínu. 

Meðal viðmælanda eru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Bryndís Eva Ásmundsdóttir og Sema Erla Serdar en allar eiga þær sameiginlegt að hafa fengið sinn skerf af dónaskap í sinn garð á netinu.

Einnig fengum við Margréti Birnu Þórarinsdóttur, sálfræðing til að veita smá innsýn í heim þeirra sem fara mikinn í kommentakerfum og gleyma gjarna almennri kurteisi. Hún segir allskonar fólk fara ógætilega á internetinu sem engu gleymir og að umræða á netinu sé ennþá það ný af nálinni að við séum ennþá að læra að ná almennilegum tökum á þessum samskiptamáta. 



Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, gjaldkeri Sjálfstæðisflokksins, segist sjaldan lesa athugasemdir um sjálfa sig á netinu og ef hún geri það reyni hún að láta þau ekki á sig fá. Henni finnst samt mikilvægt að opna umræðuna um dónaskap á internetinu þar sem slíkt verði til þess að fæla ungt og öflugt fólk frá stjórnmálaþátttöku.

Heldur þú að svokallaður dómstóll götunnar, sem hefur nú háværa og óvægna rödd í gegnum kommentakerfin og samfélagsmiðla, fæli ungt fólk frá því að taka þátt í pólitík í dag? Hvernig horfir þetta við þér og hvaða ráðleggingar getur þú gefið?

„Já, ég held það og það er einna helst ástæðan fyrir því að ég hef vakið á því athygli hvernig rætt er um mig á kommentakerfunum. Ekki af því að ég horfi á sjálfa mig sem fórnarlamb, heldur því ég hef gríðarlega miklar áhyggjur af því að ungt og öflugt fólk sem hefur áhuga á stjórnmálum vilji síður taka þátt og hafa sig í frammi með sínar skoðanir vegna þeirra niðrandi ummæla sem allir fá vegna þátttöku sinnar í þjóðfélagsumræðunni. Það er samfélagsmein að hér geti fólk ekki látið skoðanir sínar í ljós, verið ósammála og tekist á um málefni án þess að svívirða og hóta einstaklingnum. Ég held að með því að vekja athygli á ummælunum án þess að láta það á sig fá og halda ótrauð áfram þátttöku í stjórnmálum getum við sigrað þá sem eru hvað háværastir í ómálefnalegri gagnrýni.“

„Umræðan er orðin svo hatursfull og sjúk að það er ekkert eitt sem stendur upp úr frekar en annað. Einn segir að það eigi að virkja Tyrkjalögin á nýjan leik og þar með að segja að ég sé réttdræp. Annar segir að það sé hættulegt fullveldi Íslands að fólk eins og ég fái að fjölga sér óáreitt,“ segir Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. 

Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sinni í nýjasta tölublaði Glamour sem er komið í allar helstu verslanir og hægt er að tryggja sér áskrift hér, eða senda tölvupóst á glamour@glamour.is






×