Fótbolti

Eiður Aron og Hjörtur Logi 90 mínútna menn í flottum sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Aron Sigurbjörnsson þegar hann lék með ÍBV.
Eiður Aron Sigurbjörnsson þegar hann lék með ÍBV. Vísir/Daníel
Íslendingaliðið Örebro vann flottan 4-2 heimasigur á Elfsborg í kvöld en liðið var þarna að vinna eitt af efstu liðum sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Frábær frammistaða Örebro er á góðri leið með að bjarga liðinu frá falli úr deildinni.

Eiður Aron Sigurbjörnsson og Hjörtur Logi Valgarðsson spiluðu báðir allar 90 mínúturnar í vörn Örebro-liðsins.

Martin Broberg var hetja liðsins en hann skoraði þrjú fyrstu mörk Örebro í leiknum og kom liðinu í bæði 2-0 og 3-1. Daniel Gustavsson skoraði fjórða markið og kom Örebro í 4-1.

Örebro var 2-1 yfir í hálfleik en Anders Svensson minnkaði muninn rétt fyrir hálfleikinn.

Örebro hefur heldur betur snúið við blaðinu í síðustu leikjum en þetta var þriðji sigur liðsins í röð og sá fjórði í síðustu fimm leikjum.

Örebro hefur þar með náð í 13 af 23 stigum sínum í undanförnum fimm leikjum en skelfileg byrjun þýddi að liðið slapp ekki úr fallsæti fyrr en eftir sigurinn í kvöld.

Elfsborg er áfram í fjórða sæti deildarinnar en liðið átti möguleika á að komast þremur stigum frá öðru sætinu með sigri í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×