Bílar

Umhverfisvæn fjölskylda á 7 manna rafmagnsbíl

Finnur Thorlacius skrifar
Skúli Steinn Vilbergsson, sölufulltrúi hjá BL, Axel Axelsson og Svanhvít Sverrisdóttir sem fá hér afhentan nýjan 7 manna rafmagnbíl frá BL.
Skúli Steinn Vilbergsson, sölufulltrúi hjá BL, Axel Axelsson og Svanhvít Sverrisdóttir sem fá hér afhentan nýjan 7 manna rafmagnbíl frá BL.
Nýlega ákváðu Axel Axelsson og Svanhvít Sverrisdóttir að festa kaup á sjö manna rafbíl af gerðinni Nissan eNV200 sem er eini rafbíllinn í þessum flokki sem boðinn er með svo mörgum sætum. Bíllinn er jafnframt tvö hundruðasti rafbíllinn sem BL afhendir frá því að fyrirtækið hóf sölu og markaðssetningu rafmagnsbíla. Axel og Svanhvít eiga fjögur börn og segja þau að nú hafi þau meiri þörf fyrir aukið pláss fyrir allt sem fylgi stórri barnafjölskyldu á ferð og flugi.

„En það var ekki bara rýmið, við horfðum ekki síður til lægri rekstrarkostnaðar sem rafmagnsbíllinn kemur til með að færa okkur samanborið við jafnstóran bíl með hefðbundinni vél,“ segja Axel og Svanhvít. Nú þegar eru nokkrir rafbílar af gerðinni eNV200 í sendibílaútgáfu komnir í vinnu á höfuðborgarsvæðinu en bíll Axels og Svanhvítar er sá fyrsti sem afhentur er í sjö manna fjölskylduvænni útfærslu.

Mikill vöxtur í rafbílasölu

Mikill vöxtur er í sölu rafbíla hér á landi. Þannig var rafbílasalan í heild um 148% meiri 2014 en 2013 og í ár stefnir í 100% söluaukningu miðað við árið í fyrra. Þegar BL hóf sölu á rafbílnum Nissan Leaf árið 2013 voru einungis um 20 rafbílar í umferð á Íslandi. Um næstu áramót er áætlað að skráðir rafbílar á götum landsins verði orðnir um 700, þar af rúmlega 400 af tegundinni Nissan og Renault.

Í tilefni þess að í gær, mánudag, hófst hin alþjóðlega loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París er ástæða til að fagna þeirri jákvæðu þróun sem orðið hefur með aukinni sölu rafbíla á Íslandi. Rafbílar gegna mikilvægu hlutverki í loftslagsmálum auk þess að vera fjárhagslega hagkvæmur kostur fyrir stóran hóp bíleigenda.

Aukin samkeppni af hinu góða

Til að styðja við uppbyggingu nauðsynlegra innviða í rafbílavæðingu Íslands hófu Nissan í Evrópu, Orka náttúrunnar og BL samstarf um uppsetningu tíu hraðhleðslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og nærsveitarfélögum á árinu 2013. Eiga þær án efa sinn þátt í vaxandi vinsældum rafbíla hérlendis og segir Loftur Ágústsson, markaðsstjóri BL, afar jákvætt hversu flest bílaumboðanna hér á landi taki virkan þátt í rafbílavæðingunni.

„Gott úrval rafmagnsbíla frá mörgum framleiðendum er til hagsbóta fyrir markaðinn í heild, ekki síst neytendur með mismunandi þarfir,“ segir Loftur. BL býður rafbíla í mismunandi útfærslum frá tveimur framleiðendum. Þar er um að ræða Nissan Leaf sem er einn vinsælasti og mest seldi rafbíllinn hér á landi eins og annars staðar í heiminum hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Nissan býður einnig rafmagnsbílinn eNV200 eins og þann sem Axel og Svanhvít hafa fest kaup á, auk þess sem sá bíll er einnig boðinn sem sendibíll. Loks má nefna Renault sem býður Kangoo rafbíl í sendibílaútfærslu.






×