Bílar

Bíll ársins kjörinn í september

Finnur Thorlacius skrifar
Bíll ársins í fyrra, Mercedes Benz A-Class
Bíll ársins í fyrra, Mercedes Benz A-Class


Styttast fer í árlegt kjör á bíl ársins hérlendis en það er Bandalag Íslenskra Bílablaðamanna (BÍBB) sem stendur að kjörinu. Nú er ljóst hvaða bílar það eru sem koma til greina í kjörinu  en þeir eru ríflega tuttugu talsins og eiga það allir sammerkt að vera nýrrar gerðrar eða af nýrri kynslóð og hafa komið til landsins eftir síðasta kjör. Bílarnir falla í 3 mismunandi flokka, smábílar og minni millistærð, fjölskyldubílar og jeppar og jepplingar.

Söluhæsti flokkurinn

Í flokki smábíla og minni millistærð bíla eru Renault Clio, VW Golf, VW Golf GTi, Ford B-Max, Skoda Rapid, Audi A3, Nissan Leaf, Toyota Auris TS og Toyota Corolla. Stutt er síðan söluhæsti  einstaki bíll heims, Toyota Corolla, kom til landsins. Þá á einnig við Golf GTi en lengra er síðan hinir bílarnir komu til landsins. VW Golf var valinn bíll ársins í Evrópu og heiminum öllum í síðasta kjöri, en hann var ekki kominn til Íslands áður en kjör á bíl ársins í fyrra fór fram.  Í þessum flokki eru söluhæstu bílar landsins og á það einnig við í heiminum öllum.

Sterkur flokkur fjölskyldubíla

Í flokki fjölskyldubíla koma til greina bílarnir Mercedes Benz CLA, Kia Carens, Mazda 6, Skoda Octavia, Tesla Model S og Lexus IS300h. Stutt er síðan Mercedes Benz CLA var kynntur til leiks hérlendis og á það einnig við Lexus IS300h, sem fékk mjög góða dóma hjá reynsluökumanni Fréttablaðsins hér fyrir skömmu. Tesla Model S kom til landsins í þessari viku og rétt nær því inn í kjörið. Öllum hinum bílunum hefur verið reynsluekið af blaðinu og flestir þeirra fengið góða dóma, svo hörð barátta verður greinilega í þessum flokki bíla.

Margir í jeppa- og jepplingaflokki

Flokkur jeppa og jepplinga er mjög fjölmennur að þessu sinni og 9 bílar sem fylla þann flokk. Það eru Mercedes Benz GL, Honda CR-V, Subaru Forester, Isuzu D-Max, Ford Kuga, Mazda CX-5, Mitsubishi Outlander, Toyota RAV og Chevrolet Trax.  Það er ef til vill ekkert skrítið að þessi flokkur sé stór hérlendis, en þessir bílar henta einstaklega vel íslenskum aðstæðum. Í flokknum eru 7 jepplingar en aðeins 2 jeppar, þ.e. Mercedes Benz GL og Isuzu D-Max. Er það til marks á þá áherslu sem bílaframleiðendur hafa lagt á jepplinga undanfarið.

Prófanir standa yfir

Valinn verður sigurvegari í hverjum þessara flokka og einn þeirra mun standa uppi sem bíll ársins á Íslandi þetta árið. Prófanir á þeim bílum sem ekki hefur verið reynsluekið fara nú fram og tilkynnt verður um val á bíl ársins seint í september og verður afhendingin verðlaunanna í höndum Bílgreinasambandsins og BÍBB. Bandalagi Íslenskra Bílablaðamanna eru samtök blaðamanna sem hafa með umfjöllun um bíla með höndum í íslenskum fjölmiðlum, auk þess sem í félaginu eru sjálfstætt starfandi bílablaðamenn.






×